VSV meðeigandi langstærsta framleiðslufyrirtækis loðnuafurða í Japan

Deila:

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum er orðin meðeigandi í Okada Suisan í Japan, rótgrónu fjölskyldufyrirtæki sem hefur nær 50% hlutdeild á markaði fyrir loðnuafurðir þar í landi. Framkvæmdastjóri VSV segir þetta styrkja og efla sölu- og kynningarstarf vegna íslenskra sjávarafurða yfirleitt á Japansmarkaði.

Okada Suisan er stórveldi í framleiðslu og sölu loðnuafurða í Japan. Fyrirtækið á sjálft fjórar verksmiðjur í Japan, eina í Kína og er að auk í samstarfi við fimm aðrar verksmiður í Kína, Tælandi og Indónesíu.

Fyrirtækið selur loðnu og loðnuafurðir flestum verslunum í Japan, þó aðallega þægindaverslunum sem eru um 50.000 talsins.

Með kaupunum verður VSV þátttakandi í markaðs- og sölustarfi Okada Suisan í Japan og tekur hér eftir þátt í vöruþróunarstarfsemi Okada Suisan vegna markaða í Japan og vonandi víðar í framtíðinni.

Neytendur ráða ferðinni 

„Japan er og hefur verið mikilvægur markaður fyrir loðnuafurðir frá Íslandi. Með kaupunum tengjumst við þessum markaði mun betur og getum betur uppfyllt kröfur hans. Á endanum eru það auðvitað neytendur í Japan og annars staðar sem skipta mestu máli fyrir okkur og íslenskan sjávarútveg. Neytendur ráða ferðinni,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV í frétt á heimasíðu VSV.

Fyrirtækið Okada Suisan var stofnað árið 1966, nefnt eftir stofnanda sínum. Núverandi forstjóri, Masayuki Okada, er afabarn stofnandans og Okada-fjölskyldan hefur átt og rekið fyrirtækið ein þar til nú að Vinnslustöðin gerist meðeigandi.

Árið 1970 hóf fyrirtækið að þurrka loðnu og síðan flytja inn óflokkaða loðnu um aldamótin 2000.  Það framleiðir loðnuafurðir úr bæði hrygnu og hæng.

Okada Suisan framleiðir og selur afurðir úr 12.000-13.000 tonn af loðnu frá Ísland og Noregi á ári og 1.500 tonn af makríl frá Íslandi.

Fjárfestingar í Eyjum höfðu áhrif á atburðarásina

Vinnslustöðin hefur ekki áður átt viðskipti við Okada Suisan en það hafa önnur íslensk fyrirtæki hins vegar gert og gera. Þá vaknar spurning:

– Boða þessi tíðindi um breytt eignarhald japanska fyrirtækisins breytingar á viðskiptum Okada Suisan og íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna?

„Nei, slíkt stendur ekki til af okkar hálfu, síður en svo. Ég vonast miklu frekar til þess að íslenskir framleiðendur líti á eignaraðild VSV sem tækifæri til að efla og styrkja markaðsstarf í þágu íslenska sjávarútvegsins í heild í Japan.

Afar mikilvægt er að Okada Suisan haldi áfram góðum tengslum sínum við önnur íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Ég lít eindregið svo á að breytingarnar hjá japanska fyrirtækinu boði spennandi tækifæri til frekari sóknar á mörkuðum í Asíu.“

– Eru fleiri fyrirtæki en VSV að bætast við í eigendahóp Okada Suisan?

„Nei. Og svo það sé sagt þá ríkir trúnaður milli VSV og japönsku fjölskyldunnar um samninga vegna aðkomu okkar.

Við höfðum ekki átt viðskipti áður við þetta fyrirtæki en hlutirnir æxluðust þannig að menn fóru að ræða saman eins og gerist gjarnan. Við upplýstum um okkar viðhorf og kynntum nýja uppsjávarvinnslu og nýja frystigeymslu VSV í Eyjum.

Auðvitað erum við afar spennt að taka þátt í  í uppbyggingu Okada Suisan í Japan og ég lít svo á að fjárfestingar okkar í Vestmannaeyjum hafi átt sinn þátt í því að eigendur fyrirtækisins samþykktu VSV sem þátttakanda í því verkefni.“

 

Deila: