Óbætanlegt tjón?

Deila:

Alþjóðlegur upplýsingafundur um grásleppumál – LUROMA – var haldinn í Reykjavík 2. febrúar sl.  Fundurinn er árlegur og var nú haldinn í 30. skiptið.  Það er Landssamband smábátaeigenda sem hefur veg og vanda af fundinum.  Þátttaka var mjög góð, alls 43 fulltrúar frá 9 þjóðum.

Ákvörðun vottunaraðila MSC á grásleppuveiðum á Íslandi var í brennidepli.  Axel Helgason formaður LS flutti erindi á fundinum þar sem hann greindi stöðuna sem upp er komin og hvers vegna hann teldi að grásleppuveiðar hefðu misst vottunina.   Hann gagnrýndi harðlega starfsaðferðir Hafrannsóknastofnunar við mat á meðafla, auk þess að kynna erindi LS til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Snarpar umræður urðu um málefnið á fundinum sem lauk með samþykkt áskorunar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.  Í henni kemur fram fullur stuðningur við kröfu LS til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að beita sér fyrir endurskoðun á skýrslu Hafrannsóknastofnunar.

Í lok áskorunarinnar segir:

„Allir þátttakendur lýsa yfir verulegum áhyggjum vegna þeirra áhrifa sem afturköllun vottunar hefur í för með sér.  Að óbreyttu mun ákvörðunin leiða til óbætanlegs tjóns fyrir grásleppuveiðar og vinnslu á grásleppuhrognum á Íslandi.

MSC vottun grásleppuhrogna er forsenda fyrir sölu grásleppukavíars á flesta erlenda markaði.“

Áskorun til ráðherra.pdf

 

Deila: