Sveinn Margeirsson hættir hjá Matís
Sveini Margeirssyni, forstjóra Matís, hefur verið sagt upp störfum eftir átta ár í starfi. Gengið var frá starfslokum við Svein í gær. Sjöfn Sigurgísladóttir, formaður stjórnar Matís, segir ástæðu uppsagnarinnar vera skort á trausti milli stjórnar og forstjóra en vill að öðru leyti ekki gefa skýringu á því hvað veldur. Oddur Már Gunnarsson tekur tímabundið við starfi forstjóra samkvæmmt ruv.is.
Sjöfn segir í samtali við fréttastofu ruv. að samningur hafi verið gerður milli Sveins og stjórnar um starfslok hans að frumkvæði stjórnarinnar. Hún segist ekki geta tjáð sig um það hvort Sveinn gangi sáttur frá borði. Aðspurð segir Sjöfn uppsögnina ekki tengjast neinu einu ákveðnu máli heldur hafi „ákveðin þróun“ leitt að þessari niðurstöðu.
Matvælastofnun kærði í nóvember sölu Matís á heimaslátruðu lambakjöti á bændamarkaði til lögreglu. Þar seldi Sveinn kjötafurðir af lömbum sem slátrað hafði verið í samstarfi við Matís. Slátrunin var framkvæmd í samræmi við verklag sem Matís hefur lagt til að gildi um örsláturhús. Sveinn hefur lýst því yfir að engin lög hafi verið brotin með sölunni. Starfsmönnum Matís var tilkynnt um uppsögn Sveins á starfsmannafundi í dag. Sjöfn segir það alltaf óþægilegt fyrir starfsfólk þegar breytingar eigi sér stað en almennt hafi starfsmenn tekið ákvörðuninni vel.