Mikið af loðnu fyrir norðan

Deila:

Ekki er ljóst hvaðan loðna sem veiddist norður af landinu um helgina kemur eða hvað verður um hana, en fiskifræðingar hafa orðið varir við breytingar á loðnugegnd undanfarin ár sem raktar eru til hlýnunar sjávar samkvæmt frétt á ruv.is

Sjö skip á loðnuveiðum 

Loðnuskipaflotinn hefur undanfarið fylgt sterkri loðnugöngu sem gekk suður fyrir land og er nú úti fyrir Vestfjörðum, úti fyrir Tálknafirði. Fimm skip eru þar á veiðum. Þá eru tvö skip á veiðum norður af landinu, annað grænlenskt, út frá Fljótagrunni, en þar fannst talsvert af loðnu um helgina sem er skemmra á veg komin í þroska á hrognum og á því lengra til hrygningar.

Óvenju mikið af loðnu fyrir norðan

Birkir Bárðarson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir erfitt að vita hvort að loðnan sé hluti af þeirri loðnu sem fannst við mælingar í febrúar eða hvort að þetta sé hrein viðbót, annar staðar frá: „Það að það sé svona mikið magn fyrir norðan land á þessum tíma, það er óvenjulegt, og hvað verður um þessa loðnu það er áhugaverð spurning, hvort að hún mun reyna að ganga suður fyrir land, eða hvort að þessi loðna sé að fara hrygna fyrir norðan land eða hvort að þetta sé efni í svokallaða vestangöngu sem gengur vestur fyrir landið – það treysti ég mér ekki til að fullyrða.“

Sjávarhlýnun haft áhrif

Birkir segir að sjávarhlýnun til dæmis fyrir norðan land á undanförnum árum hafi haft áhrif á göngumynstur loðnunar sem hafi til dæmis valdið vandræðum við mælingar en kallar á frekari athuganir. Nú sé svo spurning hvaða breytingar séu að verða á hrygningarstöðvum, hvort þær séu að færast til og hvaða áhrif það þá hefur. Birkir segir að það sé erfitt að mæla loðnu í hrygningu eða rétt fyrir hrygningu „Það er erfitt að mæla loðnu í hrygningu og rétt fyrir hrygningu og í því sambandi þá horfum við til þess að það væri áhugavert að mæla magn loðnulirfa að lokinni hrygningu til að kortleggja hryngingarstöðvarnar.“

Mögulegar breytingar á hrygningarstöðvum

Loðnan hefur hingað til hrygnt mest sunnan og vestan við landið. Birkir segir að leitast verði við að mæla magn loðnulirfa, sem verða að seiðum, eftir hrygningu á vormánuðum samhliða öðrum leiðöngrum, til dæmis í vorleiðangri í maí. Það þurfi þó þétta yfirferð til að geta það vel en Birkir segir hvorki vera næg það sé ekki til skipatími né fjármagn. Hafa rætt við útveginn um möguleika að koma að söfnuninni til að þétta hana – en það liggur ekki fyrir.

Kvótinn að klárast

Útgerðir eru nú við það að klára loðnukvótann en samkvæmt uppýsingum frá Fiskistofu þá eru rúmlega 52 þúsund tonn eftir af kvótanum en það nær þó ekki til þess afla sem er í löndun.

 

Deila: