Kaupverð Ögurvíkur lægra en markaðsvirði
Fyrirtækjaráðgjöf Kviku hefur yfirfarið verðmötin sem unnin voru í aðdraganda kauptilboðs HB Granda í Ögurvík og kauptilboðið byggir á. Samkvæmt þeim er kaupverð HB Granda á Ögurvík lægra en markaðsvirði eigna Ögurvíkur. Jafnframt hefur FRK haft til hliðsjónar önnur viðskipti með aflaheimildir og eignarhluti í félögum með aflaheimildir sem styðja þessa niðurstöðu.
„Niðurstaða verðmatslíkans FRK, að teknu tilliti til mats stjórnenda HB Granda á væntum samlegðaráhrifum í kjölfar kaupanna, er að áætlaður ávinningur HB Granda af viðskiptunum, sé miðað við gengi evrunnar við gerð kaupsamningsins, á bilinu 19,2-38,2 m.evra eða 19,4% – 38,6% af kaupverði Ögurvíkur. Samandregið er það mat FRK að séu forsendur stjórnenda HB Granda raunhæfar séu þau viðskipti sem hér er fjallað um hagfelld fyrir HB Granda.“
Þetta er niðurstaða fyrirtækjaráðgjafar Kviku eftir að hafa metið hvort kaup HB Granda á Ögurvík séu HB Granda hagfelld. Matið var unnið að tillögu lífeyrissjóðsins Gildis, sem er einn af stærri hluthöfum HB Granda.
Framhaldshluthafafundur HB Granda verður haldinn föstudaginn 2. nóvember kl. 17 í höfuðstöðvum félagsins að Norðurgarði 1, 101 Reykjavík. Á dagskrá eru: 1. Kynning FRK á niðurstöðum sínum. 2. Tillaga stjórnar um að hluthafar staðfesti ákvörðun hennar um að kaupa allt hlutafé Ögurvíkur ehf.
Samantekt minnisblaðs – álit Kviku banka hf á kaupum HB Granda á Ögurvík ehf