Sáttir aflaskipstjórar stíga frá borði

Deila:

Sjómannadagurinn og sjómennskan eru kjarninn í efni nýjasta tölublaðs tímaritsins Ægis sem kom út í vikunni. Forsíðuviðtal blaðsins er við skipstjórana Angantý Arnar Árnason og Sigtrygg Gíslason á Akureyri. Þeir luku löngum ferli í sjómennskunni nú í maí en þeir hafa verið saman skipstjórar í 22 á þremur skipum í röð.

Farsælt samstarf
„Samstarf okkar hefur fyrst og fremst verið geysilega farsælt en þess ber auðvitað að gæta að við höfum bara einu sinni róið saman túr á sjó og það var frystitúr á Björgvin í Barentshaf haustið 2009. Það var reyndar mjög erfiður túr, bæði hvað varðar veiðarnar og veðrið, en við komum nokkuð óskemmdir úr honum,“ segja þeir félagar brosmildir í Ægisviðtalinu en þeir hafa stýrt saman togurunum Björgvin á Dalvík og Kaldbakstogurunum tveimur hjá Útgerðarfélagi Akueyri en þeir tóku við nýsmíðuðum Kaldbak árið 2017 og hafa stýrt skipinu þar til nú í maí.

Sigtryggur bætir við að öll þessi ár hafi þeim félögum tekist að leysa öll verkefni sem snúa að skipstjórninni í góðri samvinnu, hvort heldur um er að ræða veiðarfæri, skipið sjálft, áhafnarmál eða annað. „Þetta hefur gert að verkum að þegar við erum í landi í fríi þá höfum við engar áhyggjur því við vitum alltaf nákvæmlega að hverju við göngum þegar við förum um borð eftir frítúr. Þetta skiptir miklu máli.“

Samherji eins og ein stór fjölskylda
Sigtryggur hefur nánast allan sinn sjómennskuferil starfað hjá Samherja og Útgerðarfélagi Akureyringa en Angantýr Arnar var hjá útgerð Snorra Snorrasonar á Dalvík, Útgerðarfélagi Dalvíkinga og víðar áður en hann varð starfsmaður Samherja. Þeir félagar segja miklu máli skipta að starfa hjá traustri útgerð.
„Fyrir mína parta þá segi ég hiklaust að það hafi verið mikil gæfa að fá sem skipstjóri að starfa með eigendum Samherja og taka þátt í því sem fyrirtækið hefur hrint í framkvæmd í gegnum tíð- ina. Þeir hafa alla tíð verið mjög framsýnir og tilbúnir að horfa fram á veginn, notfæra sér nýjustu tækni og vinna að framþróun,“ segir Sigtryggur. Angantýr Arnar segir að í sínum huga séu það forréttindi að hafa fengið að starfa með eigendum og öðru starfsfólki Samherja öll þessi ár.
„Þetta hefur verið stórkostlegur tími og Samherji hefur ætíð verið eins og ein fjölskylda. Ef eitthvað hefur bjátað á þá hefur maður alltaf getað sótt stuðning og hjálp til fyrirtækisins og stjórnendanna. Það er dýrmætt fyrir skipstjórnendur sem aðra starfsmenn,“ segja þeir í viðtalinu.

Fróðlegt sjómannadagsblað
Í blaðinu er einnig viðtal við Sigurð Konráðsson, skipstjóra á Ottó N. Þorlákssyni og Álsey í Vestmannaeyjum, fjallað um endurbyggingu Bryndísar ÍS sem smíðuð var árið 1939, fjallað um Stellurnar á Akureyri, hátíðahöld um sjómannadagshelgina og margt fleira.

Hægt er að gerast áskrifandi að tímaritinu í gegnum heimasíðu útgefanda blaðsins, Ritform ehf. á slóðinni www.ritform.is

 

 

Deila: