Hafró þarf að hagræða

Deila:

Forstjóra Hafrannsóknarstofnunar er gert að hagræða í rekstri stofnunarinnar um 234 milljónir króna. Staðan var kynnt starfsmönnum stofnunarinnar á fundi í gær samkvæmt frétt á ruv.is

Rekstur stofnunarinnar hefur verið fjármagnaður með framlögum af fjárlögum og með framlögum frá Verkefnasjóði sjávarútvegarins. Á fjárlögum ársins er gerð krafa um 84 milljóna króna hagræðingarkrafa. Þá hefur jafnframt verið ákveðið að lækka framlagið sem hingað til hefur verið fjármagnað úr Verkefnasjóði sjávarútvegarins um 150 milljónir króna.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, segir þessa hagræðingarkröfu mjög þunga fyrir fyrirtækið og útilokar ekki að grípa þurfi til uppsagna. Stofnunin reki tvö skip og það kosti um 1200 milljónir árlega að halda þeim í ástandi til að þau séu klár á sjó. Svo bætist við viðbótarkostnaður þegar þau fari á sjóinn. Ef leggja þarf öðru skipinu þá sé helmingur af leiðöngrum stofnunarinnar farinn.

Sigurður segist hafa átt í samskiptum um þetta sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem sé að leita lausnar á málinu. Hann vonast til að lausn finnist.

 

Deila: