Heimamenn greiddu helming kostnaðar

Deila:

Í gær, sunnudaginn 20. ágúst, fór fram vígsla á Norðfjarðarflugvelli að afloknum viðamiklum endurbótum. Fjarðarbyggð, Síldarvinnslan og Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, greiddu helming kostnaðar við framkvæmdina, sem alls var um 150 milljónir króna. Sagt er frá vígslu flugvallarins á heimasíðu Síldarvinnslunnar:

„Klæðning hefur verið lögð á flugbrautina og flughlaðið, en brautin er um þúsund metra löng. Vígsluathöfnin var fjölmenn og kom fjöldi flugvéla til Norðfjarðar í tilefni hennar. Mikla athygli vakti sýning rússneskrar listflugvélar og eins áttu gestir kost á stuttri flugferð í tilefni dagsins. Alls notfærðu 170 manns sér tækifærið til að fara í útsýnisflug en flogið var á þremur vélum sem tóku þrjá farþega hver. Líklega hafa aldrei jafn margar flugvélar verið samtímis á Norðfjarðarflugvelli og í gær.

Við vígsluna voru haldnar margar ræður og þar talaði samgönguráðherra meðal annarra. Fram kom í máli manna að framkvæmdirnar við völlinn skipti Austfirðinga miklu máli en hann er fyrst og fremst hugsaður sem öryggis- og sjúkraflugvöllur. Umdæmissjúkrahús Austurlands er í Neskaupstað og það er mikilvægt að öruggur flugvöllur sé í nágrenni þess þegar flytja þarf sjúklinga með flugi. Norðfjarðarflugvöllur var malarvöllur og slíkir vellir þykja alls ekki heppilegir fyrir þær sjúkraflugvélar sem notaðar eru nú á tímum, einkum vegna steinskasts. Þá var völlurinn oft ónothæfur drjúgan hluta árs vegna aurbleytu.

Kostnaður vegna framkvæmda við flugbrautina nam um 150 milljónum króna. Ríkið greiddi um helming kostnaðar en Fjarðabyggð, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað og Síldarvinnslan hf. hinn helminginn. Það var síðan Samvinnufélag útgerðamanna, verktakafyrirtækið Héraðsverk og sveitarfélagið sem stóðu straum af kostnaði við gerð flughlaðsins.

Þó svo að flugvöllurinn sé fyrst og fremst notaður sem sjúkraflugvöllur nýtist hann einnig flugáhugamönnum sem fljúga einkaflugvélum. Þá hefur verið stofnað nýtt flugfélag, Flugfélag Austurlands, sem hyggst nýta völlinn í tengslum við útsýnisflug.

Framlag Síldarvinnslunnar til framkvæmdanna við flugvöllinn er ekki síst hugsað sem framlag til heilbrigðismála. Það skiptir fyrirtæki eins og Síldarvinnsluna öllu máli að Austfirðingar búi við sem besta heilbrigðisþjónustu og sem mest öryggi. Í því sambandi er Norðfjarðarflugvöllur mikilvægur. Í októbermánuði nk. munu síðan Norðfjarðargöng verða opnuð fyrir umferð og þá batnar aðgengi íbúanna að umdæmissjúkrahúsinu enn frekar og öryggið eykst enn til muna.“

 

Deila: