Skrúfudagurinn haldinn á laugardag

Deila:

Nemendur og kennarar í Vélskólanum munu halda Skrúfudaginn næstkomandi laugardag, 16. mars. Löng hefð fyrir því að á þessum degi kynni nemendur í vélstjórn og skipstjórn skólann og námið fyrir gestum og gangandi. Frá þessu er greint á vef VM og rætt við Herdísi Ósk Andrésdóttur (t.h.).

Um er að ræða samvinnuverkefni milli nemenda, kennara og stjórnenda skólans. Undanfarin ár hefur fyrirtækjum sem tengjast náminu verið boðið að vera með Skrúfunni, eins og þessi dagur kallast. Í ár verða Landhelgisgæslan, Landsvirkjun og Veitur á meðal fyrirtækja sem kynna starfsemi sína.

„Þetta er dagur nemenda og kennara,“ segir Herdís Ósk Andrésdóttir, útskriftarnemi í vélfræði, formaður skólafélagsins og meðlimur í skrúfunefndinni, í samtali við VM. „Fólk getur komið hingað og kynnt sér starfið sem fer fram í skólanum, prófað siglingaherminn, vélaherminn og skoðað sig um í vélasalnum. Það verður opið upp í turn þar sem fjarskiptastofan er fyrir stýrimenn. Það verður ýmislegt hægt að fikta við og skoða,“ segir hún og heldur áfram. „Svo munum við útdeila skrúfupeysunni til gesta, sem er fyrir löngu orðinn árviss viðburður. Við verðum með kaffisölu á fjórðu hæðinni auk þess sem nemendur verða boðnir og búnir að svara spurningum út um allan skóla.“

Sjálf er Herdís á sínu síðasta ári í vélstjórn og er önnur tveggja kvenna sem eru að útskrifast. Hin er Tara Ósk Markúsdóttir en þær eru saman á mynd hér að ofan. Samtals er fjórar konur í náminu. „Ég er að útskrifast með D-réttindi, sem vélfræðingur. Ég vinn í dag hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar (áður Framtak) og líður vel þar.“

Herdís segir að allir séu velkomnir á Skrúfuna. „Við viljum bara ná til allra. Hingað kemur gjarnan fólk sem hefur verið í skólanum og vill hitta gamla vini og kunningja. Við viljum líka ná til þeirra sem hafa áhuga á þessu námi eða eru forvitnir um starfsemi skólans. Allir sem hafa áhuga eru velkomnir,“ segir hún en skólinn verður opinn á milli klukkan 13 og 16.

Deila: