8.600 draugagildrur

Deila:

Sjávarútvegsráðuneyti Noregs vinnur nú að því að hreinsa svokallaðar draugagildur úr Barentshafi. Það eru snjókrabbagildur sem látnar hafa verið liggja eftir þegar erlend fiskiskip hafa yfirgefið veiðisvæðin og ekki hirt um að taka til eftir sig. Gildrurnar halda áfram að veið krabba og fisk og valda auk þess verulegri mengun og koma í veg fyrir aðrar veiðar á viðkomandi miðum.

Eftir hreinsunina hafa umtalsverð fiskimið opnast á ný, en ráðuneytið hefur leigt sérstök skip til „gildruveiðanna” og samtals hafa verið veiddar 8.600 gildrur og 270 kílómetrar af köðlum auk annars tilheyrandi búnaðar.

Reynslan hefur sýnt að gildrur halda áfram að veiða, þó í þeim sé engin beita. Snjókrabbagildrurnar sem nú hafa verið fjarlægðar eru þar engin undantekning.

Mismikið var af krabba í gildrunum, en nokkur þúsund krabbar úr þeim fengu frelsið að nýju. Engu að síður var mikið af dauðum kröbbum í þeim og ljóst að töluvert af þeim hafa orðið fiskum að bráð.

Veiðar á snjókrabba í gildrur eru bannaðar í Barentshafinu fram á haust vegna mikils meðafla af krabba í skelskiptum. Reglugerðir um veiðarnar hafa verið uppfærðar með tilliti til  leyfilegs fjölda gildra og hve lengi þær mega liggja. Þá verður sama skip og lagði gildrurnar að vitja þeirra.

Þá eru uppi hugmyndir um rafeindamerkingar á gildrum. Þær eru lagðar í lengjum líkt og netatrossur á Íslandi og hugmyndin er að merkja verði gildrurnar á hvorum enda. Þannig sé hægt að fylgjast betur með fjölda tapaðra gildra.

Deila: