Endanlega gengið frá kaupunum á Vísi

Deila:

Endanlega hefur verið gengið frá kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi hf. í Grindavík. Ákvörðun um kaupin var tekin í júlímánuði sl. en samkeppniseftirlitið samþykkti þau nýverið. Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir að nú bíði það spennandi verkefni að samþætta starfsemi félaganna á sviði bolfiskveiða og -vinnslu. Ljóst sé að Vísir sé vel rekið fyrirtæki og muni tilkoma þess styrkja Síldarvinnslusamstæðuna með ótvíræðum hætti.

Vísir er rótgróið og öflugt fyrirtæki sem rekur bæði saltfiskvinnslu og frystihús í Grindavík auk þess að gera út sex fiskiskip. Floti fyrirtækisins samanstendur af þremur stórum línubátum, einu togskipi og tveimur krókaaflamarksbátum. Hjá Vísi starfa um 250 manns, 100 á sjó og 150 í landi. Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, segir að eigendur fyrirtækisins hafi verið samstíga og mjög sáttir við ganga til samstarfs við Síldarvinnsluna.

„Vísir var fjölskyldufyrirtæki og við komin á þau tímamót að horfa til framtíðar með rekstrarformið. Við teljum að það hafi verið mjög skynsamlegt að fá hlutabréf í Síldarvinnslunni í skiptum fyrir fyrirtækið og taka þannig þátt í áframhaldandi uppbyggingu bolfiskhlutans hér í Grindavík. Það er borin mikil virðing fyrir Síldarvinnslunni og menn treysta henni í hvívetna. Innan Síldarvinnslunnar og í eigendahópi hennar er að finna landsliðið í íslenskum sjávarútvegi. Þar er mikil reynsla og þekking. Það er tilhlökkunarefni að hefja störf innan samstæðu Síldarvinnslunnar og við lítum framtíðina björtum augum,“ segir Pétur Hafsteinn.
Landað úr Vísisbátnum Sighvati GK í Grindavík

 

 

Deila: