„Þetta er búið að vera ljúft“

Deila:

„Þetta var bara fínasta vertíð. Við byrjuðum á að taka einn túr í Smuguna en vorum svo hérna heimavið. Við enduðum svo aftur í Smugunni,“ segir Bergur Einarsson, skipstjóri á uppsjávarskipinu Venus NS, sem er í eigu Brims þegar hann gerir upp makrílvertíðina. Í nýútkomnu tölublaði Ægis er rætt við nokkra skipstjóra um sumarveiðina og nýliðið fiskveiðiár.

Bergur er ánægður með að hafa geta veitt makrílinn að hluta til í íslenskri lögsögu. Það muni styrkja samningsstöðu landsins þegar kemur að því að semja um hlutdeild í þessum stofni á komandi árum. „Það er gulls í gildi að hafa fengið þetta hér heima,“ segir Bergur.

Venus er þegar þetta viðtal er tekið á síld austur af landinu. Það er stutt að fara að sögn Bergs. „Þetta er ekki nema fjögurra tíma stím,“ segir hann. Bergur er sjálfur búinn að fara einn síldartúr en tvær áhafnir skipta með sér veiðunum. „Við fengum þúsund eða ellefuhundruð tonn í þremur hollum. Við drógum í einn til þrjá tíma í senn,“ segir hann um síðasta túr. Aflabrögðin verði vart betri.

Síldaraflinn er blandaður nú í upphafi síldarvertíðarinnar. Uppistaðan í aflanum er norsk-íslenska síldin en um fjórðungur er íslensk síld, sem er smærri. Bergur segir að Brim eigi um 11 þúsund tonn í hvorum stofni. Hann reiknar með að þegar norsk-íslenska síldin færi sig muni þeir eltast við íslensku síldina, sem hafi undanfarin ár haldið sig vestan við landið. „Svo veit ég ekki alveg hvað tekur við. Fyrirtækið á eitthvað af kolmuna og ég veit ekki hvort öll skipin haldi til þeirra veiða. Svo er það auðvitað loðnan – ef guð lofar.“

Bergur segir að veiðar á þessu ári hafi gengið afar vel, heilt á litið. „Þetta er búið að vera ljúft. Við höfum ekki yfir neinu að kvarta – annað væri bara frekja,“ segir hann að lokum.

Deila: