„Þeir voru hrifnir af sjávarfanginu“

Deila:

„Við fengum hingað víðfræga matreiðslumenn sem hafa starfað á Michelin-veitingastöðum hér og þar í veröldinni. Þeir voru hrifnir af sjávarfanginu, af Vestmannaeyjum og öllu sem fyrir augu bar hér. Reyndar voru þeir gáttaðir á því að kynnast svo mörgum, metnaðarfullum og góðum veitingastöðum í ekki stærra bæjarfélagi.“

Þetta segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfisksviðs VSV á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar. Þar er fjallað um sjávarréttahátíðina Matey, sem haldin var á dagana 21. til 23. september. VSV tekur þátt í Matey á tvennan hátt, að sögn Sverris, annars vegar með því að leggja til hráefni til matargerðar og hins vegar með því að kynna gestum starfsemi fyrirtækisins og framleiðslu. Þetta er annað árið í röð sem hátíðin fer fram.

Fram kemur að hátíðin hafi tekist afar vel að þessu sinni og að hún skilji meira eftir sig en margan grunar. Frosti Gíslason hjá Fab Lab í Vestmannaeyjum segir að áhfir gestakokka Mateyjar hafi ekki horfið með þeim sjálfur – þau vari. „Við fengum hingað víðfræga matreiðslumenn sem hafa starfað á Michelin-veitingastöðum hér og þar í veröldinni. Þeir voru hrifnir af sjávarfanginu, af Vestmannaeyjum og öllu sem fyrir augu bar hér. Reyndar voru þeir gáttaðir á því að kynnast svo mörgum, metnaðarfullum og góðum veitingastöðum í ekki stærra bæjarfélagi.

Erlendu gestirnir meðhöndluðu oft hráefni á annan hátt en við erum vön að gera og matreiddu veislurétti úr fiski og fiskafurðum sem við höfum lítið af að segja, Íslendingar. Til dæmis var makríll og ufsi á matseðli víða og sumir gestanna höfðu aldrei fyrr borðað ufsa, svo dæmi sé tekið.

Matey dregur að gesti af meginlandinu og meira að segja erlendis frá líka. Hingað kom fólk af höfuðborgarsvæðinu, frá Akureyri og Eskifirði og víðar að í þeim erindum einum að taka þátt í Matey. Við fengum fjölmiðlafólk frá Bretlandi og Bandaríkjunum til að fjalla um Matey í miðlum sínum. Erindi þess til Íslands var Matey og ekkert annað.

Þarna sameinast fleiri menningarstraumar en varða mat og matarupplifun. Fyrirtæki í matvælaframleiðslu, veitingarekstri og ferðaþjónustu Vestmannaeyja stilla saman strengi. Sýning á myndlist um konur í sjávarsamfélaginu var opnuð á vegum Lista- og menningarfélags Vestmannaeyja og flutt var um helgina tónverk þar sem hvalir í sjó við Eyjar lögðu til tóna og hljóð.

Landsmenn vissu það fyrir að Vestmannaeyjar væru einn af helstu útgerðarstöðum þjóðarinnar. Nú styrkjum við markvisst þá ímynd að hér sé matarhöfuðstaður landsins og standi vel undir þeirri nafnbót,“ segir hann.

Meðfylgjandi mynd tók Frosti Gíslason. Fleiri myndir má sjá hér.

Deila: