Hef góða tilfinningu fyrir bátnum

Deila:

„Það er lítið búið að reyna á bátinn á leiðinni, við höfum ekki fengið nein veður. Bara suðaustan kalda á okkur frá Hanstholm til Þórshafnar. Það var eiginlega lens allan tímann. Það hefur því lítið reynt á bátinn.  Tilfinningin fyrir bátnum er góð og það er aðeins hreyfing hérna við eyjarnar og hann tekur hana bara vel. Þetta lofar bara góðu eins og staðan er núna. Ég hef fulla trú á því að báturinn reynist vel og allur búnaður um borð,“ segir Pétur Pétursson, eigandi og útgerðarmaður á nýjum Bárði SH.

„Við erum bara rétt komnir út frá Þórshöfn á leið til Hafnarfjarðar. Við erum búnir að vera hér í góðu yfirlæti í  nokkra daga og skoðuðum eyjarnar aðeins. Ég hef aldrei komið til Færeyja áður, en þeir taka vel á móti okkur Færeyingarnir.  Það var reyndar leiðinda veður síðustu daga og við ákváðum því að bíða það af okkur. Það lá ekkert á svoleiðis,” sagði Pétur í morgun.

Báturinn verður svo einhvern tímann á laugardagsmorguninn í Hafnarfirði. Þar verður sett í hann netaspil frá K.N. Vélsmiðju og krapakerfi frá Kælingu.

Pétur Pétursson um borði í Bárði SH. Hann er stór smábátur. Sá nýi verður enginn smá bátur.

„Ég vonast til að geta prufað bátinn á veiðum fyrir jól. Það er stefnt að því að prufa upp úr miðjum desember,“ segir Pétur.

Hinn nýi Bárður er miklu stærri en sá gamli, stærsti plastbátur sem smíðaður hefur verið til veiða við Ísland. En hvort er þetta bátur eða skip? „Þetta er miklu stærra en maður er vanur. Maður er búinn að standa í sjóskorpunni í 35 ár, nánast niðri í haffletinum á þessum minni bátum, en nú er maður kominn hærra upp. Það er öðru vísi hreyfing og þú sérð betur yfir. Það er mikil breyting frá því sem maður er maður. En maður er nú alveg á jörðinni með stærðina. Þó þetta sé mikil breyting, er þetta nú bara lítill vertíðarbátur.,“ segir Pétur Pétursson.

Deila: