Sala hvalkjöts til Japans gengur ekki gegn skuldbindingum á vettvangi CITES

Deila:

Ekki verður séð að það stangist á við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands að stunda viðskipti með hvalaafurðir við Japan eftir að Japan gengur úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ísland er aðili að alþjóðlega sáttmálanum um hvalveiðar og þar með að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Engar skuldbindingar fylgja aðildinni varðandi viðskipti með hvalaafurðir, án tillits til þess hvort um sé að ræða ríki innan eða utan Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Þetta kemur fram í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um viðskipti með hvalaafurðir. Andrés Ingi spurði tveggja spurninga; Hvaða erlendu markaði telur ráðherra að útflytjendur geti sótt á með hvalaafurðir?  Og. Telur ráðherra það standast alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, m.a. samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, að stunda viðskipti með hvalaafurðir við Japan ef svo fer fram sem horfir að Japanir gangi úr Alþjóðahvalveiðiráðinu?

Í svari ráðherrans segir ennfremur svo við fyrri spurningunni: „Milliríkjaverslun með hvalaafurðir takmarkast við þau ríki sem ekki eru bundin af skráningu viðkomandi hvalategunda í 1. viðauka CITES-samningsins (alþjóðlegs samnings um viðskipti með tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu). Verslunin takmarkast því við þau ríki sem eru annaðhvort ekki aðilar að CITES-samningnum eða eru aðildarríki sem hafa fyrirvara varðandi skráningu þeirra hvalategunda sem um ræðir í 1. viðauka.“

Og einnig: „Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna tekur ekki til viðskipta með hvalaafurðir og hefur Ísland því ekki gengist undir neinar alþjóðlegar skuldbindingar hvað þetta varðar í þeim samningi. Í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna eru ákvæði um að ríki skuli hafa samráð varðandi stjórn og nýtingu lifandi auðlinda hafsins, þ.m.t. hvala. Þó er umtalsvert svigrúm til að hátta slíku samráði á ýmsa lund og í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna eru engin ákvæði um að ríki skuli vera aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu til að stunda hvalveiðar eða til að taka þátt í verslun með hvalaafurðir. Það hefur því ekki áhrif á lögmæti verslunar með hvalaafurðir við Japan hvort Japan er aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu.
Bæði Japan og Ísland hafa gert fyrirvara um bann við viðskiptum með hvalaafurðir, þ.e. þeirra tegunda sem hér um ræðir og myndu viðskipti við Japan því í engu ganga gegn skuldbindingum Íslands á vettvangi CITES.“

Deila: