Manni bjargað af logandi bát

Deila:

Mannbjörg varð þegar eldur kom upp í bát á Héraðsflóa á þriðja tímanum í gær. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarboð frá bátnum en samkvæmt fyrstu upplýsingum var talið að báturinn væri sokkinn. Einn var um borð í bátnum og tókst honum að komast í björgunarbát.

TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar, var við leit á Melrakkasléttu þegar tilkynning um slysið barst og var áhöfn hennar þegar í stað beðin um að halda á vettvang. Rétt rúmum hálftíma eftir að TF-SYN var kölluð út var var búið að hífa manninn um borð í þyrluna, úr björgunarbátnum. Aðstæður til björgunar á Héraðsflóa voru góðar og var maðurinn við góða heilsu þegar honum var bjargað um borð í þyrluna. Þegar TF-SYN hélt af vettvangi logaði enn eldur í bátnum. Þyrlan flutti manninn til Egilsstaða og lenti þar laust fyrir klukkan fjögur.

Í áhöfn þyrlunnar voru Þórarinn Ingi Ingason, flugstjóri, Tryggvi Steinn Helgason, flugmaður, Magnús Pálmar Jónsson, sigmaður og yfirstýrimaður og Árni Freyr Sigurðsson, spilmaður og flugvirki.

 

Deila: