Fleirum hleypt að uppboðum aflaheimilda í Færeyjum

Deila:

Sjávarútvegsráðuneyti Færeyja auglýsir á næstunni hvernig uppboðum á aflaheimildum verði háttað á þessu ári. Helsta breytingin frá framkvæmd uppboða á síðasta ári verður sú að fleiri geta nú boðið í heimildirnar en áður.

Nú verður eigendum færeyskra fiskiskipa án aflaheimilda leyft að bjóða í heimildirnar. Einnig verður fyrirtækjum heimil þátttaka ef þau leggja fram staðfestan samning um að tiltekið fiskiskip undir færeyskum fána muni veiða þann kvóta sem boðið er í. Að öðru leyti gilda núverandi lög um þátttöku þessara skipa í veiðunum eins og annarra skipa.

Fyrirkomulagið á uppboðunum verður annars með svipuðum hætti og í fyrra; opin uppboð og lokuð. Fiskmarkaður Færeyja stendur fyrir opnu uppboðunum og Vörn (Fiskistofa Færeyja) fyrir þeim lokuðu. Um það bil helmingur heimildanna mælt í tonnum verður boðinn út á hvorum stað. Minnstu heimildirnar verða boðin upp í einni lotu en meiri heimildir í þremur á hvorum stað.

Heimildir í boði nú verða 614 tonn af botnfiski innan lögsögu Noregs í Barentshafi og 2.213 tonn af botnfiski innan lögsögu Rússa í Barentshafi. Botnfiskveiðiheimildirnar eru fyrst og fremst þorskur og er gert ráð fyrir uppboðum seinnihluta ágústmánaðar.

Þá eru í boði 10.894 tonn af makríl, 54.594 tonn af kolmunna og 53.000 tonn af norsk-íslenskri síld.

 

Deila: