Hrygningastoppið of stutt?
„Tímabil friðunaraðgerða til verndar hrygningarþorsks við Ísland er tiltölulega stutt m.v. nágrannaþjóðir eða 2 til 4 vikur og nær eingöngu til þess tímabils sem hrygning er talin vera í hámarki en rannsóknir hafa sýnt að hrygning þorsks nær allt frá miðjum mars og langt fram í maí mánuð. Í ljósi tímalengdar lokanna vegna hrygningar þorsks hjá nágrannaþjóðum okkar má velta upp hvort núverandi reglugerð um friðun hrygningarþorsk nái nægjanlega langt með tilliti til tímalengdar.“
Þannig segir í greinargerð Hafrannsóknastofnunar vegna fyrirspurnar frá Landssambandi smábátaeigenda þess eðlis hvort ekki sé rétt að undnaskilja handfæraveiðar frá stoppinu. Samkvæmt þessu er velt upp þeim möguleika að lengja þurfi hrygningarstoppið. Greinargerð Hafrannsóknastofnunar fer hér á eftir:
Inngangur
Þó færa megi rök fyrir því að upphaflegar ástæður hrygningarstopps eigi ekki lengur við þá hafa rannsóknir á síðastliðnum 20 árum leitt í ljós að við Suðurland losa stórar hrygnur egg nær landi í strandstraumnum sem eykur líkur á að lirfur berist á uppeldisslóð norðan við landið. Stórar hrygnur losa jafnframt fleiri egg á hvert kíló líkamsþyngdar og yfir lengra tímabil en litlar hrygnur. Þá hafa komið fram sterkar vísbendingar um að smærri hrygningareiningar fyrir Norður- og Austurlandi séu mikilvægari en áður var talið til að viðhalda breytileika í eiginleikum stofnsins. Rannsóknir hafa sýnt að truflun af völdum veiðarfæra getur valdið því að hrygning þorsks misfarist. Þegar á heildina er litið er talið að vernd hrygningarsvæða yfir hrygningartímann, auki líkur á að klak heppnist við breytilegar umhverfisaðstæður á Íslandsmiðum.
- Hver sé árangur af samfelldri 28 ára friðun á hrygningartíma þorsks
Erfitt er að aðskilja árangur einnar aðgerðar líkt og friðun á hrygningartíma frá áhrifum annara aðgerða eins og upptöku aflareglu og betri stjórn á veiðum almennt. Á þessum tíma hefur stærð hrygningarstofns um það bil þrefaldast og tíðni slakra árganga lækkað. Þannig hefur árgangur undir 100 milljónum nýliða ekki komið fram síðan 2004.
- Hver sé stærðasamsetning hrygningarstofns 1991 og 2018
Samsetning hrygningarstofns hefur gjörbreyst milli áranna 1991 og 2018. Þannig voru um 83% allra þorska í hrygningarstofni 7 ára (um 4 kg) og yngri árið 1991 en árið 2018 voru um 57% þorska í hrygningarstofni 7 ára og yngri. Samsetning hrygningarstofns hefur því breyst mikið á umræddu tímabili. Í viðauka er mynd sem sýnir aldursdreifingu hrygningarstofns (mv. fjölda) árin 1991 og 2018.
- Hver séu rök stofnunarinnar fyrir því að bannið nái einnig til veiða með handfærum
Í upphafi var markmið hrygningarstopps að minnka sókn í stórþorsk. Hinsvegar hafa rannsóknir sýnt að truflun við hrygningu t.d. vegna veiðarfæra getur haft þau áhrif að þorskur fari af hrygningarslóð og snúi ekki þangað aftur. Af þeim sökum sem og því sem rakið er í inngangi telur stofnunin að alger friðun fyrir veiðum á hrygningarslóð auki líkur á að hrygning og klak heppnist vel.
- Hvort rannsakað hafi verið hvort sá tími sem hrygningarstoppið nær yfir sé hápunktur hrygningar
Hámark hrygningar þorsks er breytilegt frá ári til árs en rannsóknir Hafrannsóknastofnunar hafa sýnt fram á að hámark hrygningar er í apríl. Að jafnaði er talið að hrygningarstoppið nái að mestum hluta yfir það tímabil sem hámark hrygningar stendur yfir. Í viðauka er mynd sem sýnir tíðni hrygnandi þorsks í þremur stærðarflokkum á árunum 1994 til 1999.
- Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort þekkt sé að aðrar þjóðir stöðvi veiðar með línu og handfærum yfir hrygningartíma þorsks eða annarra fisktegunda
Við austurströnd Kanada og Bandaríkjanna eru hrygningarstopp bæði fyrir þorsk og ýsu þar sem notkun allra veiðarfæra sem geta veitt botnfisk er bönnuð á skilgreindum hrygningarsvæðum. Tímalengd lokanna þar er frá 1 og hálfum mánuði til fimm mánaða. Svipaða sögu er að segja frá vesturströnd Skotlands þar sem hrygningarsvæði í Clyde-firði er lokað í 2 mánuði á ári en þar er á hluta svæðisins leyfðar veiðar með humarvörpu. Afmörkuðum hrygningarsvæðum í Noregi er lokað frá 1. janúar til 6. júní fyrir öllum veiðum m.a. frístundaveiðum (sportveiðum). Fleiri dæmi má tína til.
Lokaorð
Nýlegar vísindagreinar sem leitast hafa við að taka saman áhrif svæðalokanna til verndunar hrygningarfisks komast að þeirri niðurstöðu að það sem helst veldur því að árangur þeirra sé takmarkaður er að lokanir séu of takmarkaðar í tíma, rúmi og lítt takmarkandi við að hindra truflun hrygningar. Því er varað við að grafa undan markmiðum slíkra reglugerða með því að taka ekki tillit til allra þátta sem hafa áhrif á það að hrygning og klak heppnist. Það er fiskveiðidauða, veiðimynstri og truflunum á hrygningaratferli.
Tímabil friðunaraðgerða til verndar hrygningarþorsks við Ísland er tiltölulega stutt m.v. nágrannaþjóðir eða 2 til 4 vikur og nær eingöngu til þess tímabils sem hrygning er talin vera í hámarki en rannsóknir hafa sýnt að hrygning þorsks nær allt frá miðjum mars og langt fram í maí mánuð. Í ljósi tímalengdar lokanna vegna hrygningar þorsks hjá nágrannaþjóðum okkar má velta upp hvort núverandi reglugerð um friðun hrygningarþorsk nái nægjanlega langt með tilliti til tímalengdar.
Í ljósi aukins skilnings á fjölbreytileika hrygningarstofns þorsks og líklegu mikilvægi ólíkra hluta hans sem og nýlegra rannsókna sem sýnt hafa fram á neikvæð áhrif veiða á hrygningaratferli þorsks leggst Hafrannsóknastofnun á móti því að undanskilja handfæraveiðar í reglugerð um friðun hrygningarþorsks og skarkola á vetrarvertíð.