Reglugerð um starfsemi Fiskistofu aldrei verið sett

Deila:

Sjávarútvegsráðherra hefur aldrei sett reglugerð um starfsemi Fiskistofu, þó svo að það hafi honum borið að gera allt frá árinu 1992. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallar um þetta í áliti sínu á skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sagði að það teldi fullnægjandi að fiskistofustjóri ákveddi skipulag stofnunarinnar. Nefndin telur hins vegar að ráðherra hafi ekki heimild til að framselja vald sitt til fiskistofustjóra. Frá þessu er sagt á ruv.is

Þetta kemur fram í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem birtist á vef Alþingis. Þar kemur fram að ákvæði um að ráðherra setji reglugerð hafi staðið nær óbreytt í lögum frá 1992. Nefndin leggur áherslu á að ráðherra sé lögum samkvæmt skylt að setja slíka reglugerð. Frá þeim tíma sem lögin voru sett hafa níu ráðherrar stýrt málaflokknum, og reyndar sá tíundi tímabundið eftir kosningar 1999.

Rafrænt eftirlit frekar en fleiri eftirlitsmenn

Álit nefndarinnar snýr að svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu. Í skýrslunni segir meðal annars að þeir eftirlitsþættir sem voru skoðaðir hafi reynst „ómarkvissir og veikburða“.

„Nefndin lýsir áhyggjum sínum yfir því að eftirlit með nýtingu sjávarauðlindarinnar sé ófullnægjandi,“ segir í áliti nefndarinnar, eftir að hún lýsir mikilvægi sjávarútvegsins fyrir þjóðarbúið. Hún telur úrbóta þörf en telur „ómögulegt að halda úti eftirliti með hverju og einu skipi“ auk þess sem sönnun á brotum sé oft vandkvæðum bundin þar sem þau séu framin úti á sjó.

Nefndin telur að styrkja megi eftirlitið með öðrum aðferðum en fjölgun eftirlitsmanna. Þannig megi skoða rafrænt eftirlit. Nefndin vísar til þess að aflasamsetning hafi breyst í Danmörku eftir að rafrænt eftirlitskerfi var tekið upp. Þá vill nefndin skoða að Fiskistofa fái rafrænan rauntímaaðgang að vigtun á afla og geti notað dróna við eftirlit.

Nefndin segir það vekja athygli að Fiskistofa hafi ekki getað gert grein fyrir fjölda vinnustunda við eftirlit hjá vigtunarleyfishöfum. Þó sé ekki hægt að líta framhjá þeim orðum stjórnenda Fiskistofu að hún hafi verið undirmönnuð um árabil og því ekki getað sinnt eftirliti með fullnægjandi hætti.

 

Deila: