Handfæraveiðar ekki undanskildar í hrygningarstoppi

Deila:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hafnað beiðni Landssambands smábátaeigenda þess efnis að hanfæraveiðar verði undanskildar í reglugerð um hrygningarstopp. Höfnunin er meðal annars byggð á umsögn Hafrannsóknastofnunar.

Frá þessu er greint á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda og er svar ráðuneytisins birt á síðunni:

„Vísað er í erindi Landssambands smábátaeigenda (LS) dags. 3. mars 2019, þar sem fram kemur beiðni um að undanskilja veiðar með handfærum í reglugerð um friðun hrygningarþorsks og skarkola á vetrarvertíð. Þá er í erindi LS farið þess á leit að Hafrannsóknastofnun upplýsi um fimm atriði/spurningar varðandi friðun vegna hrygningar þorskstofnsins.

Ráðuneytið sendi erindi LS til umsagnar Hafrannsóknastofnunar og fylgir það hér með.

Í umsögn/svari Hafrannsóknastofnunar er fyrrnefndum fimm spurningum LS svarað og síðan segir í lokaorðum Hafrannsóknastofnunar:

„Nýlegar vísindagreinar sem leitast hafa við að taka saman áhrif svæðalokana til verndunar hrygningarfisks komast að þeirri niðurstöðu að það sem helst veldur því að árangur þeirra sé takmarkaður er að lokanir séu of takmarkaðar í tíma, rúmi og lítt takmarkandi við að hindra truflun hrygningar. Því er varað við að grafa undan markmiðum slíkra reglugerða með því að taka ekki tillit til allra þátta sem hafa áhrif á það að hrygning og klak heppnist. Það er fiskveiðidauða, veiðimynstri og truflunum á hrygningaratferli.

Tímabil friðunaraðgerða til verndar hrygningarþorsks við Ísland er tiltölulega stutt m.v. nágrannaþjóðir eða 2 til 4 vikur og nær eingöngu til þess tímabils sem hrygning er talin vera í hámarki en rannsóknir hafa sýnt að hrygning þorsks nær allt frá miðjum mars og langt fram í maí mánuð. Í ljósi tímalengdar lokana vegna hrygningar þorsks hjá nágrannaþjóðum okkar má velta upp hvort núverandi reglugerð um friðun hrygningarþorsks nái nægjanlega langt með tilliti til tímalengdar.

Í ljósi aukins skilnings á fjölbreytileika hrygningarstofns þorsks og líklegu mikilvægi ólíkra hluta hans sem og nýlegra rannsókna sem sýnt hafa fram á neikvæð áhrif veiða á hrygningaratferli þorsks leggst Hafrannsóknastofnun á móti því að undanskilja handfæraveiðar í reglugerð um friðun hrygningarþorsks og skarkola á vetrarvertíð.

Ráðuneytið telur í ljósi umsagnar Hafrannsóknastofnunar ekki tilefni til að verða við beiðni Landssambands smábátaeigenda að undanskilja veiðar með handfærum í reglugerð um friðun hrygningarþorsks og skarkola á vetrarvertíð.“

 

Deila: