Fínasta veiði

Deila:

Venus NS er nú á landleið með rúmlega 2.600 tonna kolmunnaafla og er skipið væntanlegt til Vopnafjarðar síðdegis ídag. Að sögn Róberts Axelssonar skipstjóra í samtali á heimasíðu HB Granda, er nú skörp kolmunnaveiði í færeysku lösögunni.

,,Það er búin að vera fínasta veiði. Við vorum innan við fjóra sólarhringa á miðunum og holin eru yfirleitt frá átta tímum og upp í 12-14 tíma. Við höfum verið að fá 400 til 550 tonn af kolmunna í holi og alls tókum við sex hol í þessum túr,” segir Róbert.

Svo virðist sem að kolmunninn sé á norðurleið en Róbert segir að á meðan veiðin sé jafn skörp og raun ber vitni þá séu menn lítið að leita að nýjum veiðisvæðum. Kolmunninn gangi hins vegar mjög vestarlega núna, líkt og í fyrra.

Að sögn Róberts Axelssonar er kolmunninn af fínni stærð líkt og í fyrsta túr skipsins eftir páskahátíðina. Þá var aflinn einnig um 2.600 tonn en landað var á Vopnafirði í byrjun síðustu viku.

 

Deila: