Skaginn 3X með vinnsludekk í nýtt frystiskip HB Granda
Skaginn 3X og HB Grandi hafa gert með sér samkomulag þar sem Skaginn 3X mun bera ábyrgð á vinnsludekkinu um borð í nýju frystiskipi HB Granda. Þetta er fjórði samningurinn milli fyrirtækjanna hvað varðar heildarlausn um borð í nýjum skipum HB Granda. Fyrirtækin höfðu áður gert með sér samning hvað varðar heildarlausn um borð í systurskipin Engey, Akurey og Viðey, en þau skip hafa hlotið verðskuldaða athygli hvað varðar hugvit, sjálfvirkni og afurðagæði.
Mikill sveigjanleiki verður um borð hvað varðar vinnslu á mismunandi tegundum, fjölbreyttum vinnsluaðferðum og pökkunarmöguleikum. „Vatnsskurður mun gera það að verkum að unnt verður að framleiða afurðir sem almennt þekkjast ekki um borð í frystiskipum. Það er mjög mikilvægt að hönnun á vinnslubúnaði, þ.m.t. pökkun, frysting og brettun styðji við nýjar og auknar kröfur markaðarins“ segir Jón Birgir Gunnarsson, markaðs- og sölustjóri hjá Skaginn 3X.
Spænska skipasmíðastöðin Astilleros Armon Gijon, S.A., annast smíði skipsins og mun stöðin afhenda vinnsludekkið frá Skaginn 3X, sem hluta af heildarlausn, til HB Granda. Skaginn 3X mun annast afhendingu á vinnsludekkinu í heild sinni, þar sem hluti búnaðar mun koma frá undirverktökum Skaginn 3X, svo sem Vélfag, Marel og Afak.
Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skaginn 3X, segir að samningurinn og þessi einstaka hönnun á vinnsluskipinu sé afrakstur góðrar samvinnu milli Skaginn 3X og HB Granda.
„Skaginn 3X er vel þekkt fyrirtæki sem hefur á undanförnum mánuðum og árum hlotið margs konar verðlaun og á sama tíma verið valið sem leiðandi fyrirtæki í alþjóðlegum verkefnum. Fyrirtækið sérhæfir sig í heildarlausnum bæði í landi og um borð í veiðiskipum.
Fyrirtækið hefur áratuga reynslu í framleiðslu á búnaði fyrir matvælavinnslu og býður upp á fjölbreytt úrval af lausnum sem eru í takt við stefnu fyrirtækisins um að vera leiðandi fyrirtæki í hönnun og þróun á kæli- og frystibúnaði fyrir matvælavinnslu. Starfsfólk Skaginn 3X er með menntun og áratuga reynslu í iðngreinum, verkfræði, hugbúnaði og sjávarútvegi.
Styrkur fyrirtækisins liggur í nýsköpunarkrafti starfsfólksins og nánu samstarfi við viðskiptavini til þess að mæta þörfum þeirra og bjóða lausnir sem auka verðmætasköpun,“ segir í frétt frá Skaginn 3X.