„Ítrekuð ósannindi fréttamanns“
„Helgi Seljan, fréttamaður Ríkisútvarpsins, hefur nú endurtekið rangar fullyrðingar sínar um glötuð störf í namibískum sjávarútvegi eftir að félög tengd Samherja hófu starfsemi í landinu. Þannig hefur hann endurflutt sömu ósannindi og hann fór með í morgunútvarpi Rásar 2 í gærmorgun og Samherji leiðrétti í gær.“
Svo segir í tilkynningu frá Samherja og segir þar ennfremur: „Helgi vitnar í frétt götublaðsins The Namibian Sun þar sem fullyrt er að störf hafi tapast í namibískum sjávarútvegi eftir að fyrirtækið Namsov missti þúsundir tonna af úthlutuðum aflaheimildum vegna breyttra reglna um úthlutun. Fyrst skal áréttað að engin störf glötuðust í namibískum sjávarútvegi eftir breytingar á úthlutun aflaheimilda í hrossamakríl heldur fluttust störfin milli fyrirtækja og skipa. Þá er mikilvægt að halda því til haga að fyrirtækið Namsov var lengst af ekki í eigu Namibíumanna heldur var það í eigu suður-afrísku samsteypunnar Bidvest Group sem er metið á 8,4 milljarða dollara og er númer 1.062 á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir 2.000 stærstu fyrirtæki heims. Þetta eru semsagt störfin sem heimamenn áttu að hafa glatað, störf hjá suður-afrískri alþjóðasamsteypu. Það var ekki fyrr en á árinu 2018 sem Bidvest Group seldi Namsov til namibíska fyrirtækisins Tunacor.
Fram til ársins 2012 voru uppsjávarveiðar í Namibíu nær eingöngu í höndum tveggja fyrirtækja, Namsov og Erongo, sem voru lengst af bæði í eigu Suður-Afríkumanna. Hlutur heimamanna í namibískum sjávarútvegi jókst fyrst eftir að breytingar urðu á reglum um úthlutun á árunum 2011-2012 þegar aflaheimildir voru teknar frá gömlu suður-afrísku fyrirtækjunum. Það var eftir að félög tengd Samherja og fleiri erlend útgerðarfyrirtæki hófu starfsemi í namibískum sjávarútvegi.
Að þessu virtu er það ekki boðlegur málflutningur hjá Helga Seljan að flytja ítrekað þau ósannindi að Namibíumenn hafi glatað störfum í namibískum sjávarútvegi eftir að félög tengd Samherja hófu starfsemi í landinu.“