Aukin viðskipti þrátt fyrir innflutningsbann

Deila:

Viðskipti Íslands og Rússlands voru jafnframt ofarlega á baugi á fundi utanríkisráðherra Íslands og Rússlands í Moskvu nú í vikunni. Þau hafa aukist verulega undanfarin misseri eftir lægð í kjölfar innflutningsbanns Rússa á matvæli frá Vesturlöndum. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra áréttaði óánægju íslenskra stjórnvalda með umfang bannsins sem hefur komið mjög illa niður á fiskútflutningi Íslendinga. Á hinn bóginn hafa skapast tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í Rússlandi sem selja búnað og þjónustu tengd sjávarútvegi. Þá er ferðaþjónusta á milli landanna einnig í sókn.

„Þessi nýja sókn íslenskra fyrirtækja í Rússlandi vega auðvitað ekki upp á móti tapinu sem innflutningsbann Rússa á matvælum hefur bakað okkur. Hins vegar sýna þeir að viðskipti Íslands og Rússlands eru þrátt fyrir allt blómleg og fara vaxandi, ekki síst á sviði nýsköpunar og tækni sem eru atvinnugreinar sem skipa æ ríkari sess í íslenskum útflutningi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ræddu norðurslóðamál, tvíhliða samskipti og viðskipti á fundi sínum í Moskvu. Þá voru öryggismál í Evrópu og alþjóðamál einnig til umræðu.

Þetta er í fyrsta skipti í átta ár sem að utanríkisráðherra Íslands fer til Moskvu til fundar við kollega sinn. Síðast funduðu þeir Guðlaugur Þór og Lavrov í Rovaniemi í Finnlandi í maí síðastliðnum þegar Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu og þar áður á norðurslóðaráðstefnu í rússnesku borginni Arkhangelsk í mars 2017.

Málefni norðurslóða voru einmitt í brennidepli á fundinum nú en þar undirrituðu ráðherrarnir sameiginlega yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf innan Norðurskautsráðsins. Íslands gegnir formennsku í ráðinu fram í maí 2021 en þá tekur Rússland við keflinu. „Þótt íslensk og rússnesk stjórnvöld greini á um ýmislegt deilum við sýn á mikilvægi norðurslóða og yfirlýsingin sem við undirrituðum í dag staðfestir það. Hún er gott veganesti fyrir bæði ríkin til að tryggja nauðsynlega samfellu í starfi Norðurskautsráðsins og þar áréttum við þýðingu friðar, stöðugleika og fjölþjóðasamvinnu á þessu viðkvæma svæði,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Yfirlýsingin tekur auk þess til samvinnu um sameiginleg markmið og aðgerðir hvað varðar sjálfbæra þróun, loftslagsbreytingar, líffræðilegan fjölbreytileika, málefni hafsins og innra starf ráðsins.

Í lok fundarins færði Guðlaugur Þór Lavrov að skilnaði treyju íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

Með utanríkisráðherra í för var viðskiptasendinefnd skipuð fulltrúum 19 fyrirtækja, Íslandsstofu, utanríkisráðuneytisins Viðskiptaráðs Íslands og Rússnesk-íslenska viðskiptaráðsins, auk ræðismanna. Viðskiptaráðið var stofnað nýverið með þátttöku 44 fyrirtækja, sem sýnir glöggt áhugann á að efla viðskipti landanna. Viðskiptasendinefndin átti fundi fyrr í vikunni með Business Russia Association og Viðskiptaráði Rússlands ásamt því að heimsækja nýsköpunarmiðstöðina í Skolkovo í útjaðri Moskvu.

 

Deila: