Fyrsta loðnan unnin í nýrri próteinverksmiðju

Deila:

Loðnan, sem Beitir NK kom með, er bæði feit og falleg.

Beitir NK kom sl. þriðjudag með fyrstu loðnuna til Neskaupstaðar á þessari vertíð. Aflinn var rúm 1.300 tonn og er verið að vinna hann í hinni nýju próteinverksmiðju Síldarvinnslunnar. Heimasíða Síldarvinnslunnar  sló á þráðinn til Hafþórs Eiríkssonar, rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, og spurði hann hvernig vinnslan gengi.

„Hún gengur vel. Nú erum við að nýta báðar línur verksmiðjunnar og afköstin eru um 380 tonn á sólarhring. Fiskurinn, sem Beitir kom með, er feitur og fallegur og hið prýðilegasta hráefni. Við kappkostum að ná sem mestu lýsi úr hráefninu og það hefur gengið vel. Þá lofa fyrstu tölur varðandi mjölið mjög góðu. Búið er að prófa að vinna síld og kolmunna í nýju verksmiðjunni og nú erum við semsagt að prófa að vinna loðnu í fyrsta sinn. Þessi vinnsla hefur gengið vel. Auðvitað þarf að vinna í ýmsum stillingum á búnaði í nýrri verksmiðju en hér eru menn afar ánægðir með það hvernig hefur gengið,“ segir Hafþór.
Ljósmyndir Hafþór Eiríksson.

 

Deila: