Tíu nýir togarar til landsins í ár

Deila:

Ársins 2017 mun án efa verða lengi minnst í íslenskri útgerðarsögu. Aldrei hafa jafn margir nýsmíðaðir togarar komið til landsins á einu ári en fari sem horfir koma allir nýju togararnir heim áður en árið er úti, 10 skip alls samkvæmt umfjöllun í Sóknarfæri.

Engey fyrst þriggja togara HB Granda

Fyrsti ísfisktorarinn af þremur samskonar fyrir HB Granda hf., Engey RE 91, kom til landsins í janúar síðastliðnum og hélt þegar í stað til Akraness þar sem er verið að setja vinnslu- og lestarbúnað í skipið. Líkt og fjallað er um á öðrum stað í blaðinu er reiknað með að skipið haldi til veiða í aprílmánuði. Í vor er reiknað með næsta skipi fyrir HB Granda, sem ber nafnið Akurey AK og það þriðja er væntanlegt í árslok og heitir Viðey RE. Eins og áður segir eru þetta samskonar skip, smíðuð í Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Skipin eru tæplega 55 metrar metrar að lengd og 13,5 metra breið. Skipin hannaði Nautic ehf.

Nýsmíðar til Dalvíkur, Akureyrar og Sauðárkróks

Á dögunum tók Útgerðarfélag Akureyringa á móti nýjum Kaldbaki EA 1 sem er fyrsti ísfisktogarinn af fjórum samskonar sem Samherji hf. og FISK Seafood á Sauðárkróki sömdu um smíði á við Cemre skipasmíðastöðina í Tyrklandi. Næsta skip í þessari röð verður Björgúlfur EA sem kemur í stað núverandi Björgúlfs EA á Dalvík. Skipið er væntanlegt í vor eða snemmsumars. Í haust er síðan væntanlegt þriðja skipið í þessari röð sem heita mun Drangey SK og er í eigu FISK Seafood á Sauðárkróki. Fjórða skipið sem er í eigu Samherja hf. er síðan áætluð í heimahöfn fyrir árslok. Þetta eru samskonar skip, 63,5 metra löng og 13,5 metra breið. Skipin voru hönnuð af Skiptatækni ehf.

Breki og Páll Pálsson í Kína

Í Huanghai skipasmíðastöðinni í Shidao í Kína eru tveir samskonar ísfisktogarar í smíðum sem reiknað er með að komi til landsins í sumar. Um er að ræða Breka VE fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum og hins vegar Pál Pálsson ÍS fyrir Hraðfrystihúsið Gunnvöru í Hnífsdal. Þetta eru 50 metra löng skip og 13 metra breið, hönnuð með óvenju stórri skrúfu miðað við skrokkstærðina. Togararnir verða búnir þremur rafdrifnum togvindum og geta dregið tvær botnvörpur samtímis. Heimsigling skipanna mun taka yfir 40 sólarhringa og eftir að heim kemur bíður þeirra lokaáfangi smíðanna, sem er niðursetning vinnslubúnaðar. Skipin eru hönnuð hjá Skipasýn ehf.

Frystitogarinn Sólberg stærstur

Tíunda skipið, það stærsta og mest búna, er frystitogarann Sólberg ÓF 1. Skipið er í eigu Ramma hf. í Fjallabyggð og er smíðað í Tyrklandi. Áformað er að það komi til landsins nú í vor. Sólberg er 80 metra langt, 15,4 metra breitt og hefur frystigetu upp á 90 tonn á sólarhring. Í lest skipsins komast 1200 tonn af afurðum en í því verður einnig mjölvinnsla. Þetta verður í fyrsta sinn svo vitað sé að frystitogari verði búinn vatnsskurðarvél auk flakavinnslulínu og annars búnaðar sem fullbúið vinnsluskip á borð við þetta krefst. Sólberg ÓF 1 er hannað af Skipsteknisk AS í Noregi.

Deila: