Enn slá Norðmenn met í útflutningi

Deila:

Norðmenn fluttu utan sjávarafurðir fyrir 1.225 milljarða íslenskra króna. Það var aukning um 23% eða 227 milljarða króna frá árinu áður, sem var það ár til þessa sem skilaði mestum verðmætum. Miðað við verðmæti fóru 67% á markaði í Evrópu. Verðmæti þess útflutnings varð alls 820 milljarðar.

Staða eldislaxins er sterk í Evrópu, en hátt verð á honum hefur dregið úr útflutningi á mikilvæga markaði. Gert er ráð fyrir því að verðið haldi áfram að hækka á evrópsku mörkuðunum. Það á bæði við um ferskan heilan lax og unnar afurðir eins og frystan lax og reyktan. Þetta er talið leiða til þess að meira af laxinum fari á nýja markaði í öðrum heimshlutum. Sala á laxi til landa innan Evrópu dróst saman um 6% mælt í magni, til Asíu fór 1% minna, en 2% vöxtur varð á sölunni til Norður-Ameríku.

Met í laxi og hvítfiski

Útflutningur á laxi og urriða á árinu nam einni milljón tonna að verðmæti 873 milljarðar. Það var samdráttur um 3,5% í magni, en verðmætið jókst um 31%.
Verðmæti útflutts hvítfisks, þorsks, ýsu, karfa og ufsa, var 185 milljarðar, sem er met. Aukning í verðmætum var 6% og magnið jókst 7%. Af því voru 81.000 tonn af þurrkuðum saltfiski að verðmæti 49 milljarðar. Það er samdráttur um 8% í magni og 6,5% í verðmætum. Sala á ferskum hvítfiskafurðum jókst um 7% í magni og 14% í verðmætum sem urðu alls 43 milljarðar. Norðmenn telja sig geta fengið meira út úr þessum útflutningi. Það sé unnt með aukinni áherslu á markaðsmál og jafna framboðið yfir árið. Það eigi bæði við ferskar og frystar afurðir.

Aukning í makríl, síld og skelfiski

Útflutningur á makríl varð 309.000 tonn að verðmæti 55 milljarðar íslenskra króna. Það er samdráttur um 12% í magni, verðmætið jókst um 6%. 8% meira af síld var flutt utan í fyrra og verðmæti útflutningsins hækkaði um 28% og varð 41 milljarður króna. Útflutningur á skelfiski skilaði 25 milljörðum. Það er aukning um 21% frá árinu áður. Vöxtinn má fyrst og fremst rekja til aukningar í sölu á kóngakrabba og snjókrabba.

Norðmenn fluttu sjávarafurðir utan til 146 landa í fyrra. Að þeim er Pólland mikilvægasti markaðurinn með 130 milljarða. Mikið af þeim fiski, sem þangað fer, fer til neyslu innanlands, en stór hluti er unninn frekar þar og síðan fluttur út til annarra landa. Svipaða sögu er að segja af Danmörku.
Næst stærsti markaðurinn fyrir norskar sjávarafurðir er Frakkland. Þangað fóru afurðir að verðmæti 106 milljarðar króna. Það er aukning um 27% og verð hvergi meiri vöxtur en þar í fyrra.

Deila: