Útvegsmenn ekki áhyggjufullir
Útgerðarmenn eru ekki áhyggjufullir vegna stefnuyfirlýsingar nýrrar ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum. „Við höfum fulla trú á því að stjórnin hafi það að markmiði að tryggja öruggt rekstrarumhverfi sjávarútvegsins til framtíðar,“ sagði Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Jens Garðar sagði að opnað væri á ýmsa möguleika í sáttmála stjórnarflokkanna en hann hefði ekki áhyggjur af því. „Veldur hver á heldur,“ sagði hann. Nú kæmi nýr sjávarútvegsráðherra til starfa og fylgst yrði með því hvernig hann og hinn nýi meirihluti tæki á hlutunum.
Stefnuyfirlýsingin er svohljóðandi: „Núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi hefur skilað miklum þjóðhagslegum ávinningi. Mikil hagræðing hefur átt sér stað í sjávarútvegi um leið og tekist hefur að tryggja sjálfbærni fiskveiða á Íslandsmiðum. Þá hefur öryggi sjómanna aukist til muna. Ríkisstjórnin telur kosti aflamarkskerfisins mikilvæga fyrir áframhaldandi verðmætasköpun í sjávarútvegi. Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna. Gæta þarf að langtímarekstraröryggi í greininni og stöðugleika í byggðum.“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hún er fædd 4. október 1965. Lögfræðipróf frá HÍ 1993. Alþingismaður Reyknesinga 1999-2003, alþingismaður Suðvesturkjördæmis 2003-2013 (Sjálfstæðisflokkur), varaformaður Sjálfstæðisflokksins 2005-2010. Menntamálaráðherra 2003-2009. Alþingismaður SV-kjördæmis síðan 2016 (Viðreisn). Hún starfaði síðast fyrir Samtök atvinnulífsins.