Fullt hús hjá Marel

Deila:

Fjöldi gesta heimsóttu Marel og kynntu sér starfssemi félagsins á opnu húsi sem var haldið 27. maí 2019 í höfuðsstöðvum félagsins  á Íslandi.

Marel stendur á tímamótum þar sem félagið hyggur á almennt hlutafjárútboð og skráningu í Euronext kauphöllina í Amsterdam til viðbótar við núverandi skráningu félagsins í Nasdaq kauphöllina á Íslandi. Á opnu húsi í höfuðstöðvum Marel fengu gestir innsýn í stefnu og framtíðarsýn félagsins á þessum tímamótum og gátu kynnt sér Marel sem fjárfestingakost.

FRÁ SPROTA AÐ LEIÐTOGA Á HEIMSVÍSU

Ásthildur Otharsdóttir stjórnarformaður Marel setti fundinn og talaði um þá framsýni og hugrekki sem stofnendur Marel sýndu þegar þeir kynntu til sögunnar fyrstu rafeindavogina fyrir 40 árum sem varð kveikjan að gagnabyltingu í íslenskum sjávarútvegi. Þá tóku Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri við og fóru yfir vegferð Marel frá sprota að leiðtoga á heimsvísu, vöxt og árangursríkan rekstur undanfarna áratuga, framtíðarsýn og tækifæri.

Árið 1992 var félagið fyrst skráð á markað í kauphöll Íslands, en þá námu tekjur félagsins 6 milljónum evra og starfsmennirnir voru 45 talsins. Með stuðningi breiðs hóps fjárfesta og bakhjarla í íslensku samfélagi hefur félagið vaxið og dafnað, en árið 2018 námu tekjur Marel 1,2 milljarði evra.

Í dag starfa yfir 6.000 manns hjá félaginu, þar af um 700 á Íslandi. Árlega fjárfestir Marel 6% af heildartekjum í nýsköpun og vöruþróun, sem er meira en nokkur samkeppnisaðili okkar. Á síðasta ári nam fjárfesting okkar í nýsköpun 74 milljónum evra eða sem nemur tæpum 10 milljörðum króna.

VOGARAFL TIL FRAMTÍÐAR

Að erindum loknum stýrði Anna Kristín Pálsdóttir, stjórnandi í vöruþróun, pallborðsumræðum sem báru yfirskriftina „Vogarafl síðustu 40 ára til næstu 40 ára“. Í umræðunum ráku Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi, Jón Þór Ólafsson, verkfræðingur í vöruþróun og einn af stofnendum Marel, Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, Sigurður Ólason, framkvæmdastjóri Fiskiðnaðarseturs Marels og Skúli Sigurðsson, yfirmaður vörusviðs sögu Marel.

Félagið rekur rætur sínar til Háskóla Íslands þar sem hópur frumkvöðla lagðist á eitt um að auka nýtingu í sjávarútvegi og þróaði til þess fyrstu rafeindavogina fyrir fiskvinnslu. Fjörutíu árum síðar er Marel í sterkri stöðu á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, kerfa, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski.

Pallborðsgestir ræddu einnig þau tækifæri sem til staðar eru til þess að auka nýtingu enn frekar, draga úr sóun, auka gæði og öryggi matvæla og stuðla að sjálfbærni í matvælavinnslu á heimsvísu.

Snemmsumars hyggur Marel á almennt hlutafjárútboð og skráningu í Euronext Amsterdam kauphöllina, til viðbótar við skráningu sína í íslensku kauphöllinni. Skráning á alþjóðlegan hlutabréfamarkað veitir aðgengi að breiðari hóp fjárfesta og veitir reynslumiklu stjórnendateymi Marel styrkan grunn til að framfylgja metnaðarfullum áætlunum um frekari vöxt félagsins og mæta áskorunum framtíðar í matvælavinnslu.

VÖRUÞRÓUNAR TÆKIFÆRI MEÐ SÝNDARVERULEIKA

Starfsmenn úr öllum deildum fyrirtækisins tóku þátt í leiðsögn um starfsstöðina og fræddu gesti um framleiðslu- og vöruþróunarstarf sem fer fram í höfuðstöðvunum. Með hjálp sýndarveruleika gátu gestir einnig stigið inn í eina fullkomnustu laxaverksmiðju heims sem er staðsett í Noregi í sýndarveruleika (e. virtual reality). Marel notar sýndarveruleika í auknum mæli í vöruþróunarstarfi og hefur sú tækni sparað bæði kostnað og tíma í vöruþróunarferlinu.

Marel býður viðskiptavinum sínum jafnframt að nýta þessa tækni til að prófa nýjan tæknibúnað löngu áður en hann er afhentur. Helstu kostirnir við þetta eru annars vegar tækifæri til þjálfunar starfsmanna í notkun tæknibúnaðar og hins vegar undirbúningur í hámörkun gagnasöfnunar og nýtingar gagna.

AUKIN SJÁLFVIRKNI Í FRAMLEIÐSLU

Framleiðslustarfssemi Marel í Garðabæ vakti einnig áhuga gesta. Starfmenn með fjölbreytta sérþekkingu í framleiðslustýringu, innkaupum og tækni sögðu gestum frá fjárfestingu og umbótum, meðal annars aukinni sjálfvirknivæðingu sem hefur aukið bæði afköst og getu framleiðslunnar.

 

Deila: