Nauðsynlegt að gjaldheimtu í sjávarútvegi sé í hóf stillt

Deila:

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggst í ályktun atvinnuveganefndar fundarins, gegn fyrirhuguðum skattahækkunum á fiskeldi. Jafnframt segir í ályktun nefndarinnar nauðsynlegt sé að stilla gjaldheimtu að sjávarútvegi í hóf.

Ályktun sjávarútvegsnefndar landsfundarins fer hér á eftir:

„Íslenskur sjávarútvegur, sem er burðarás í atvinnulífi um land allt, er leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi. Íslenskur sjávarútvegur er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg.

Nauðsynlegt er að gjaldheimtu í sjávarútvegi sé stillt í hóf, hún dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni. Ljóst er að há auðlindagjöld lenda þyngst á minni sjávarútvegsfyrirtækjum, sem oft eru hornsteinar samfélaga um allt land.

Tryggja þarf stöðugleika í rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs sem byggir á núgildandi aflamarkskerfi svo að greinin haldi áfram að vaxa á grundvelli sjálfbærrar nýtingar fiskistofna. Í ljósi minnkandi fyrirsjáanleika í heimsmálum er mikilvægt að sjávarútvegurinn hafi sveigjanleika í tilhögun veiða. Með öflugum sjávarútvegi vex nýsköpun og vöruþróun. Grundvöllur arðsemi sjávarútvegs mun byggja á samþættingu veiða, vinnslu og markaðar. Góðar samgöngur innanlands og milli landa eru forsenda þess að tryggja gæði og afhendingaröryggi sjávarafurða.

Mikilvægt er að öryggi sjómanna sé ávallt haft að leiðarljósi.

Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs og felur í sér aukin tækifæri til verðmætasköpunar bæði í sjókvía- og landeldi. Mikilvægt er að tryggja fyrirsjáanleika rekstrarumhverfis greinarinnar. Uppbygging á að byggjast á bestu vísindum og viðurkenndum alþjóðlegum aðferðum þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi og tillit tekið til umhverfis-, rekstrar- og samfélagslegra þátta. Leggja ber áherslu á góða umgengni og öflugar smitvarnir svo að álag á vistkerfi sé lágmarkað og réttur komandi kynslóða tryggður. Jafnframt er mikilvægt að fiskeldið myndi byggðafestu og að margfeldisáhrif greinarinnar skili sér sem mest inn í íslenskt hagkerfi. Lagst er gegn fyrirhuguðum skattahækkunum á fiskeldi og hvatt til hóflegrar skatt- og gjaldheimtu svo gjaldtaka hamli ekki áframhaldandi vexti greinarinnar um allt land.“

Deila: