Leita að ýsu fyrir austan

Deila:

Frystitogarinn Örfirisey RE er nú á Austfjarðamiðum með það að höfuðmarkmiði að veiða ýsu. Togarinn var staddur á Gerpisflaki er tal náðist af skipstjóranum, Ævari Jóhannssyni.

,,Við létum úr höfn 4. nóvember sl. og byrjuðum veiðar á Vestfjarðamiðum. Þar var afla að hafa en hann var of blandaður með gullkarfa og þorski fyrir okkar smekk. Þá var veðurspáin slæm fyrir Vestfjarðamið. Það var því einboðið að sigla austur. Það höfðu borist fréttir um góða ýsuveiði á Austfjarðamiðum og þar er gullkarfinn ekki að þvælast fyrir manni,” segir Ævar í samtali á heimasíðu Brims.

Hann segir Örfirisey tiltölulega nýkomna austur en samt sem áður hafi reynt á aflabrögðin.

,,Við fengum góðan ýsuafla hér grunnt á Gerpisflaki. Þorskurinn heldur sig dýpra og úti í köntunum. Við reynum af fremsta megni að sneiða hjá honum og vonandi tekst það,” segir Ævar.

Að sögn Ævar verður látið reyna á ýsuveiðina næstu dagana en hann reiknar með að enda veiðiferðina á SV-miðum.

,,Vonandi tekst okkur að veiða djúpkarfa og ufsa þar en stefnan er að koma til hafnar 28. nóvember nk.,” segir Ævar Jóhannsson.

Með þessu móti næst ein veiðiferð enn fyrir jól. Arnar Haukur Ævarsson verður þá með skipið líkt og í næst síðustu veiðiferð en aflinn þá var um 860 tonn upp úr sjó að verðmæti um 400 milljóna króna.

,,Við lentum í góðu ufsaskoti á Fjöllunum og það bjargaði miklu,” segir Arnar Haukur Ævarsson.

 

Deila: