Kallað eftir verulegri vaxtalækkun

Deila:

Formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kallar eftir verulegri vaxtalækkun Seðlabanka Íslands. Áhrifin af sterkri krónu og lækkandi fiskverði séu farin að valda miklum vandræðum í rekstri þessarra fyrirtækja. Framlegðin sé lítil sem engin og víða sé orðið erfitt að manna fiskiskip. Þetta segir hann í samtali við ruv.is

Eins og RÚV hefur greint frá bitnar sterk króna og lágt fiskverð orðið mjög á afkomu smábátaútgerða. Mun færri stunda strandveiðar nú en í fyrra og dæmi eru um að eigendur bátanna séu farnir að leggja þeim.

Framlegðin lítil sem engin og erfitt að manna skipin

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir áhrifin síst betri hjá stærri útgerðum. Gengi kórónunnar hafi mikil áhrif á reksturinn og reynist þeim erfitt. „Framlegðin er bara orðin lítil sem engin. Og ekki síst hjá þeim sem kannski eru með minni rekstrareiningar og háan fastan kostnaði í íslenskum krónum, þá er þetta farið að bíta verulega í. Svo er ég að heyra það líka að það er bara orðið erfiðara að manna skip, ekki síst ísfisktogarana og línuskipin.“

Vaxtastefna Seðlabankans viðhaldi ástandinu

Og Jens segir að vaxtastefna Seðlabankans viðhaldi þessu ástandi. Því sé skjótvirkasta leiðin að lækka vexti. Hingað sæki erlendir fjárfestar til að fjárfesta í hávaxtaumhverfi og það styrki krónuna. Þá sé lítill hvati fyrir innlenda fjárfesta að sækja til annarra landa á meðan þeir njóti mun betri ávöxtunar hér heima. „Þannig að við höfum nú bent á að það geti í rauninni orðið fyrsta atriðið til þess að reyna að dempa þennan styrkingarfasa sem er á krónunni. Það er að taka vextina og lækka þá, allverulega.“

 

Deila: