Flestir nytjastofnar standa vel

Deila:

Flestir nytjastofnar við landið standa nokkuð vel og ráðleggja vísindamenn aukningar á veiðum á þorski, ýsu og ufsa. Hrygningarstofn gullkarfa hefur minnkað lítillega og íslenska sumargotssíldin stendur ekki vel. Hafrannsóknastofnun leggur nú til minnsta kvóta á henni áratugum saman.

Þorskur Iceland pelagic
Hafrannsóknastofnun ráðleggur 6% aukningu á aflamarki þorsks byggt á aflareglu stjórnvalda, úr 244.000 tonnum í 257.572 tonn fyrir fiskveiðiárið 2017/2018. Samkvæmt stofnmatinu í ár stækkaði viðmiðunarstofninn lítillega milli áranna 2016 og 2017. Búist er við að þegar þorskárgangarnir frá 2014 og 2015 komi inn í viðmiðunarstofninn 2018 og 2019 stækki hann nokkuð frá því sem nú er. Fyrsta mæling á árgangi 2016 bendir til að hann sé undir meðaltali.

Ýsa bresk teikning

Samkvæmt aflareglu stjórnvalda er ráðlagt aflamark ýsu 41.390 tonn fyrir fiskveiðiárið 2017/2018, sem er 20% aukning frá fyrra ári. Þessi aukning byggir á bættri nýliðun ýsu árin 2016 og 2017 miðað við fimm ár þar á undan. Aflaregla ufsa gerir jafnframt ráð fyrir 10% aukningu í aflamarki fyrir næsta fiskveiðiár, úr 55.000 tonnum í 60.237 tonn. Aukninguna má m.a. rekja til hins stóra 2012 árgangs.

Karfi Iceland Pelagic

Árgangar gullkarfa hafa verið með lakasta móti frá 2006 og af þeim sökum hefur hrygningarstofn minnkað lítillega. Samkvæmt aflareglu verður heildaraflamark gullkarfa 2017/2018 því 50.800 tonn sem er 4% lækkun frá fyrra fiskveiðiári. Samkvæmt samkomulagi milli Íslands og Grænlands mun 90% eða 45.720 tonn koma í hlut Íslendinga. Ráðgjöf fyrir grálúðu er óbreytt frá fyrra ári eða 24.000 tonn. Samkvæmt samkomulagi milli Íslands og Grænlands munu 13.536 tonn koma í hlut Íslendinga.

Sild (1)
Stofn íslensku sumargotssíldarinnar hefur minnkað ört á undanförnum árum vegna slakrar nýliðunar og frumdýrasýkingar í stofninum. Þannig hefur stofninn minnkað um nær 60% á undanförnum áratug. Ekki er að vænta mikilla breytinga á stofnstærðinni á næstu árum þar sem árgangar sem eru að koma inn í veiðistofninn eru metnir litlir og sýkingarhlutfall mælist hátt. Samkvæmt nýrri aflareglu fyrir síld sem rýnd hefur verið af Alþjóðahafrannsóknaráðinu, verður aflamark næsta fiskveiðiárs um 39.000 tonn sem er 38% lækkun frá yfirstandandi fiskveiðiári.

Steinbítar

Ráðgjöf fyrir flatfiskastofna er lítið breytt frá síðasta fiskveiðiári, að undanskilinni þykkvalúru þar sem ráðlagt aflamark eykst um 20%, í 1304 tonn. Lítilsháttar lækkun aflamarks er lögð til fyrir blálöngu, hlýra og steinbít. Þannig lækkar ráðlagður heildarafli steinbíts úr 8811 tonnum í 8540 tonn. Samkvæmt nýjum aflareglum fyrir löngu og keilu lækkar aflamark löngu um 8% frá fyrra fiskveiðiári í 8598 tonn, en hækkar í 4370 tonn fyrir keilu sem er 16% aukning. Lögð er til aukning aflamarks um 20% í skötusel, í 853 tonn, og hlutfallslega svipuð aukning fyrir gulllax eða úr 7885 tonnum í 9310 tonn.

risahumar

Nýliðun í humarstofninn hefur verið mjög lítil í ríflega áratug og aflamark farið lækkandi. Hafrannsóknastofnun leggur til 12% lækkun aflamarks á humri fyrir fiskveiðiárið 2017/2018, í 1150 tonn. Lögð er til 19% aukning á hámarksafla sæbjúgna og munar þar mestu um aukningu á veiðisvæði við Austurland, úr 623 tonnum í 985 tonn.

 

Deila: