Þorskurinn fer í „fæðingarorlof“
Árlegt hrygningarstopp vegna þorskveiða, oft kallað fæðingarorlof þorskins, hefst hefst á morgun, laugardaginn fyrsta apríl. Þá lokast svæði með Suðurströndinni mjótt belti vestur um og norður að Skorarvita. Veiðisvæði lokast svo eitt af öðru. Formlega lýkur stoppinu 15. maí þegar opnað verður fyrir veiðar í Húnafirði.
Tilgangur þessarar veiðistöðvunar er að gefa þorskinum góðan frið við hrygninguna, en með því telja vísindamenn Hafrannsóknastofnunar að auknar líkur séu á enn stærri þorskstofni.
„Stærð þorskstofnsins 2016 mældist 1.241 þúsund tonn, sem var nánast óbreytt frá 2015. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá 2016 spáir stofnunin því að veiðistofn minnki og mælist 1.191 þúsund tonn í ár. Hver niðurstaðan verður mun líklega ekki verða kynnt fyrr en í júní nk.
Vakin er athygli að þorskstofninn sl. ár hefur ekki mælst stærri síðan 1980.
Hrygningarstoppið nú er 26. í samfelldri röð þess, en því var fyrst komið á árið 1992,“ segir um hrygningarstoppið á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.