Afurðirnar fluttar úr landi

Deila:

Þessa dagana kemur hvert skipið á fætur öðru til Neskaupstaðar til að lesta frystar afurðir. Eitt skipanna lá við bryggju og æi gær og var að lesta 1.500 tonn en tvö lágu við festar á firðinum. Að sögn Heimis Ásgeirssonar yfirverkstjóra í frystigeymslum Síldarvinnslunnar munu þessi skip samtals lesta 6.000-7.000 tonn en mikilvægt er að losna við afurðirnar svo nægilegt rými sé í geymslunum fyrir framleiðslu fiskiðjuversins og þeirra vinnsluskipa sem landa í Neskaupstað.

Heimir segir að tíðarfarið hafi tafið afgreiðslu skipanna. „Það hefur rignt mikið síðustu daga og það hefur tafið okkur verulega. Hins vegar gerum við okkur vonir um að það stytti upp þegar líður á daginn og þurrt verði að mestu næstu daga. Við verðum að láta hendur standa fram úr ermum því auk skipanna er vinnsluskipið Hákon EA að landa 650 tonnum af frystri síld í dag,“ sagði Heimir í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar í gær.

 

Deila: