Við megum vera stolt af íslenskum sjávarútvegi

Deila:

„Íslendingar eru fremstir á heimsvísu þegar veiðar, vinnsla og sala á fiski á í hlut. Svo hefur ekki alltaf verið, en það er staðreynd í dag. Fá lönd í heiminum eiga meira undir vegna fiskveiða en Íslendingar og hvergi í ríkjum innan OECD vinna hlutfallslega fleiri við sjávarútveg en hér á landi. Sjálfbær sjávarútvegur hefur verið, er og mun verða um ókomna framtíð, ein meginstoða efnahagslífs og farsældar á Íslandi. Íslensk tæknifyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi og starfa náið með honum, eru einnig í fremstu röð í heiminum. Framleiðni í sjávarútvegi á Íslandi er há, og sjávarútvegurinn er önnur tveggja atvinnugreina hér á landi sem skarar framúr þegar kemur að alþjóðlegum samanburði á framleiðni.“ Svo segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS í pistli á heimasíðu samtakanna. Þar segir hún ennfremur:

„Það sem hvetur fyrirtæki í sjávarútvegi til dáða er samkeppni á alþjóðlegum markaði, en um 98% af öllum fiski sem veiddur er við strendur Íslands er fluttur út. Á þeim markaði er enginn annars bróðir í leik. Samkeppnin er hörð og kröfurnar miklar. Til að standast kröfurnar verður sífellt að gera betur og umfram allt að fjárfesta í nýjustu tækni og búnaði. Að öðrum kosti verða íslensk fyrirtæki undir í baráttunni. Fjárfestingin er ekki eingöngu í skipum og bátum heldur, og ekki síður, í íslenskri tækni og lausnum, sem finna má í skipum, bátum og fiskvinnslum. Bein fjárfesting í sjávarútvegi skilar sér í fjölmörgum afleiddum störfum víða um land.

Fjárfesting í íslenskum sjávarútvegi þarf að vera að minnsta kosti um 20 milljarðar króna á ári, næstu árin. Þetta kom fram í máli Jónasar Gests Jónassonar löggilts endurskoðanda hjá Deloitte á Sjávarútvegsdegi Deloitte, SA og SFS, sem haldinn var í Hörpu 17. október. Þrátt fyrir miklar fjárfestingar umliðin ár, þá er enn mikil þörf á endurnýjun skipa og tækja. Því telur SFS að mat Deloitte sé varfærið. Áframhaldandi fjárfestingar eru forsenda fyrir því að íslenskur sjávarútvegur verði samkeppnisfær á alþjóðlegum markaði.

Umræða um aukna gjaldtöku af þeim sem nýta fiskveiðiauðlindina virðist á köflum byggjast á skilningsleysi á mikilvægi fjárfestinga í greininni. Eins og ég rakti hér að framan er grundvallaratriði fyrir hagsmuni Íslands að íslenskur sjávarútvegur standist erlenda samkeppni. Það mun ekki takast ef draga á máttinn úr fyrirtækjum með aukinni gjaldtöku. Aukin gjaldtaka mun ekki eingöngu hafa neikvæð áhrif á fjárfestingar heldur munu önnur fyrirtæki sem sjávarútvegur á í viðskiptum við einnig verða fyrir neikvæðum áhrifum. Vegna þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru, ber að gera þá kröfu til þeirra sem tala fyrir aukinni gjaldtöku, að þeir hinir sömu leggi fram rökstutt mat á heildaráhrifum aukinnar álagningar. Í því samhengi stoðar lítið að benda einvörðungu á afkomu nokkurra stórra fyrirtækja og álykta að allir geti greitt meira. Því þannig er það ekki.

Sjávarútvegsfyrirtæki, eins og önnur fyrirtæki, greiða 20% tekjuskatt. Sjávarútvegsfyrirtæki greiða einnig veiðigjald. Séu þessir tveir skattstofnar lagðir saman greiddu sjávarútvegsfyrirtæki 36-38% af hagnaði ár hvert til ríkisins á tímabilinu 2014-2016. Er þá ótalin önnur gjaldtaka hins opinbera. Til einföldunar má því segja að sjávarútvegur greiði hátt í tvöfalt hærri skatt af hagnaði en önnur fyrirtæki.

Þá er við fyrrgreint að bæta að arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja hafa verið umtalsvert lægri en gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum. Samkvæmt upplýsingum af vef Hagstofu Ísland eru arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði á árunum 2010-2015, um 21% í sjávarútvegi en 31% að jafnaði í atvinnulífinu. Staðhæfingar um hið gagnstæða eru því rangar.

Íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð í heiminum og sú staða skapaðist ekki fyrir tilviljun. Ábati samfélagsins er hámarkaður með öflugum fyrirtækjum víða um land, sem bjóða góð störf og skila umtalsverðum tekjum til samfélagsins. Það er staða sem aðrar þjóðir láta sig dreyma um. Af þessari ástæðu væri það fordæmalaus skammsýni að fórna góðri stöðu fyrir alls óljósan ávinning.“

Ljósmynd Hjörtur Gíslason

 

Deila: