Minna af fiski flutt utan frá Færeyjum

Deila:

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum á fyrsta fjórðungi þessa árs dróst verulega saman miðað við sama tímabil í fyrra. Mælt í verðmætum var samdrátturinn 20% og 25% í magni. Samdrátturinn er mestur í útflutningi afurða úr uppsjávarveiðum.

Þegar litið er á verðmæti útfluttra afurða á umræddu tímabili, kemur í ljós að það hefur fallið um 7,2 milljarða króna og er nú 28,9 milljarðar íslenskra króna. Laxinn skilar mestum verðmætum eins og undanfarin ár, eða 13,3 milljörðum króna, sem er samt samdráttur um 10%. Tekjur af útflutningi botnfiskafurða eru 5,4 milljarðar og hafa aukist um 2%. Gífurlegt fall er í útflutningstekjum af uppsjávarfiski, síld, makríl og kolmunna, eða 51%. Verðmætið nú er 5 milljarðar, en var á sama tíma í fyrra 10,2 milljarðar.

Breytingar á útfluttu magni eru á svipuðum nótum, þegar litið er á hlutföll. Alls fóru 96.738 tonn utan nú, sem er samdráttur um 32,672 tonn. Uppsjávarfiskur er eftir sem áður uppistaða útflutningsins, eða 44.193 tonn. Það er hins vegar fall um ríflega 27.000 tonn eða 38%. Laxinn kemur næst, en af honum fóru utan tæplega 14.500 tonn sem er vöxtur um 2%. Af botnfiski fóru utan um 10.800 tonn, sem er um 2% minna en í fyrra.

 

Deila: