Sannfærður um ávinning nýs kjarsamnings

Deila:

„Ég er ekki í vafa um að þessi samningur er mjög góður fyrir sjómannastéttina, bæði náðust með honum mikilvægar kjaraog réttindabætur fyrir stéttina og svo var mjög mikilvægt fyrir okkur að brjótast út úr þessu ófremdarástandi að sjómenn hafi verið árum saman án kjarasamings, líkt og hefur verið raunin síðasta áratug. Kjarasamingurinn er vissulega til langs tíma en við teljum að jafnt og þétt muni menn átta sig betur á hve miklar bætur hann færir stéttinni,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, um kjarasamning aðildarfélaga sambandsins við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sem samþykktur var nú á útmánuðum. Samningurinn er að því leyti frábrugðinn því sem almennt hefur tíðkast á íslenskum vinnumarkaði að hann er mjög langur, gildir til 10 ára en þó eru í honum ákvæði um mögulega uppsögn sjómanna á samningnum eftir fimm ár að undangenginni atkvæðagreiðslu.

Samþykki í seinni atrennu

Síðast gerðu sjómenn kjarasamning árið 2017 og rann hann út árið 2019. Eftir áralangt þóf við samningaborðið náðust kjarasamningar í febrúar 2023 en honum höfnuðu félagsmenn og því þurfti að setjast við samningaborðið á nýjan leik. Nýr samningur, sem í aðalatriðum byggðist á fyrri samningnum, var undirritaður í febrúar og í framhaldinu samþykktur af aðildarfélögum SSÍ. Sjómenn höfðu þá verið kjarasamningslausir í fjögur ár. Valmundur segir síðari saminginn vissulega um margt áþekkan þeim sem var felldur en þó hafi náðst í millitíðinni mikilvæg viðbótarákvæði. „Þar má nefna möguleikann á að segja samingnum upp eftir fimm ár, eingreiðsla og desemberuppbót, sem sjómenn hafa aldrei haft. Hún mætti mikilli mótspyrnu hjá útgerðunum en náði engu að síður í gegn. Á þessu ári sem leið milli samninganna tókst því að bæta við samninginn atriðum sem hvað mest voru í gagnrýnisumræðunni. Almennt tel ég að með kjarasamingnum séu sjómenn að færast í kjaramálum nær því sem gerist í samfélaginu,“ segir Valmundur.

Lágmarkslaun sjómanna loks tryggð

Valmundur undirstikar tvö atriði sérstaklega hvað þessa samningsgerð varðar. Í fyrsta lagi ákvæði um lágmarkslaun sjómanna sem nú hafi verið tengd við flokk í launatöflu Starfsgreinasambands Íslands munu þannig taka breytingum í takt við launaþróun hjá Starfsgreinasambandinu. Hafa verði í huga að í reynd sé ekki verið að takast á um launakerfi sjómanna í kjarasamningsgerðinni. „Sjómenn eru á hlutaskiptakerfi og það þýðir að laun þeirra eru í reynd gengistryggð og geta hækkað og lækkað. Við erum því ekki að hrófla við því kerfi. Hins vegar er mjög mikilvægt að sjómönnum séu tryggð mannsæmandi lágmarkslaun sem haldreipi ef eitthvað kemur upp á, t.d. slys eða veikindi. Þetta er dæmi um stórt hagsmunamál sem lá óbætt hjá garði meðan enginn kjarasamningur var í gildi en hefur nú verið fært til mun betri vegar.“

Tilgreind séreign stórmál fyrir sjómenn

Lífeyrismálin segir Valmundur annað mjög stórt mál. „Ég tel raunar að margir hafi enn ekki áttað sig á til fulls hversu mikill árangur náðist á því sviði fyrir stéttina. Með því að ná fram tilgreindri séreign í samningnum greiðir útgerðin samtals 11,5% af sjómönnum í lífeyrissjóð. Útfærslan er þannig að sjómenn geta valið hvort þeir greiða 3,5% í tilgreinda séreign sem viðbótarlífeyri, greiða þetta í samtrygginguna eða í niðurgreiðslu húsnæðislána. Það getur verið mismunandi eftir aldursskeiði hvaða leið er hagkvæmust; fyrir unga sjómenn getur verið hagkvæmast að greiða í samtrygginguna til að auka réttindi á meðan þeir eldri geta séð meiri ávinning í séreignarsöfnun. Aðalatriðið er samt það hversu mikið sjómenn eru að fá út úr þessu lífeyrisákvæði og það mun tíminn leiða enn betur í ljós,“ segir Valmundur.

Greinin birtist fyrst í Sóknarfæri.

Deila: