Kröfðust þess að fá að veiða út tímabilið

Deila:

Hátt í 100 strandveiðisjómenn tóku þátt í kröfugöngu sem farin var frá Hörpu að Austurvelli í hádeginu í dag. Þar var Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, ráðherra sjávarútvegsmála, afhent kröfubréf þess efnis að strandveiðibátar fái að stunda veiðar allt strandveiðitímabilið, maí, júní, júlí og ágúst. Að óbreyttu snemmast veiðarnar snemma í júlí en það væri þá þriðja árið í röð þar sem veiðarnar klárast í júlí. Veiðiheimildir í kerfinu eru of rýrar til að standa undir fjórum mánuðum.

Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, las upp áskorunina við Alþingishúsið í dag, sem fundurinn samþykkti einróma. Að svo búnu afhenti hann ráðherra áskorunina. Bjarkey sagði í kjölfarið að hugur hennar stæði til að efla strandveiðikerfið en að hún væri bundin af ramma laga um fiskveiðistjórnunarkerfið. Þegar hún hafði lokið máli sínu áttu strandveiðimenn, sem voru mis hressir með yfirlýsingu ráðherra, snörp orðaskipti við ráðherrann.

Örn Pálsson, formaður Landssamband smábátaeigenda, tók einnig stuttlega til máls.

Að afhendingu lokinni sendu strandveiðimenn neyðarkall til Alþingis Íslendinga. Það gerðu þeir á táknrænan hátt, með því að tendra neyðarblys.

Strandveiðar hófust í maí. Búið er að veiða rétt liðlega helming pottsins en veður hamlaði sjósókn í vikunni sem er að líða, um mestallt land.

Myndband af formanninum, Kjartani Páli Sveinssyni, lesa upp áskorunina má sjá hér að neðan.

Hér má sjá nokkrar myndir frá mótmælunum.

Deila: