Minna aflaverðmæti staðfestir fiskverðlækkun

Deila:

Í september 2016 var aflaverðmæti íslenskra skipa tæplega 12,2 milljarðar króna sem er samdráttur um 1,9% samanborið við september 2015, þrátt fyrir aukningu fiskaflans í sama mánuði um 22%. Verðmæti botnfiskafla nam tæpum 6,9 milljörðum og dróst saman um tæp 20% frá fyrra ári. Uppistaðan í verðmæti botnfiskaflans var þorskur en verðmæti hans nam tæpum 4,5 milljörðum í september sem er tæpum 1,1 milljarði minna en í september 2015 samkvæmt frétt frá Hagstofu Íslands.

Verðmæti uppsjávarafla jókst hins vegar á milli ára, nam tæpum 4,5 milljörðum sem er 52,6% meira en í september 2015, munar þar mestu um aukinn makrílafla. Einnig varð tæplega 22% aukning í verðmæti flatfiskafla sem nam 621 milljónum króna í september. Aflaverðmæti skelfisks dróst saman um 45% og nam 215 milljónum samanborið við 394 milljónir í september 2015.

Á 12 mánaða tímabili frá október 2015 til september 2016 var aflaverðmæti 137,6 milljarðar króna sem er 10% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr. Munar þar mestu um 29% samdrátt í aflaverðmæti uppsjávartegunda.

Þessi samdráttur er athyglisverður í ljósi þess að heildarafli í september varð 113.000 tonn, sem er aukning um 22%, en verðmætið lækkar um 1,9%. Botnfiskaflinn í september dróst saman um 2% en verðmæti hans varð 6,9 milljarðar króna, sem er 19,8 % samdráttur. Þorskaflinn í september varð ríflega 22.000 tonn, sem var 3% samdráttur frá sama mánuði árið áður. Verðmætið varð 4,4 milljarðar króna og féll um 20%. Varla er hægt að lesa annað út úr  þessum tölum en að þær endurspegli mikla verðlækkun á fiski upp úr sjó. Svipað er að segja um aðrar botnfisktegundir.

Í flatfiskinum er myndin önnur. Þar jókst aflinn í september um 18%, en verðmæti hans um 21,8%.

Uppsjávarafli í september varð 74.000 tonn, 53.000 tonn af makríl, 19.600 tonn af síld og 1.300 tonn af kolmunna. Samtals er það 38% aukning og í makrílnum er aukningin 61%. Verðmætin voru 4,5 milljarðar króna og uxu um 52.6%. Í síldinni virðist verðið hafa lækkað, en verðmæti landaðs makríls jókst um 92,3%. Það er mun meira en magnið jókst og skýrist líklega af því mun hærra hlutfalli aflans hefur nú verið landað frystu en fersku. Fyrir frysta makrílinn fæst mun hærra verð.

Deila: