Tvísýnt um erlenda markaði fyrir fisk

Deila:

Verkfall sjómanna hefur nú þegar haft mikil áhrif á eftirspurn eftir íslenskum fiski á erlendum mörkuðum, segir heildsali í Belgíu. Áhrifanna gæti gætt lengi og ólíklegt er að viðskiptavinir leiti strax aftur eftir íslenska fisknum, þegar og ef leyst verður úr deilu sjómanna og útgerða. Kollegi hans í Bandaríkjunum er þó bjartsýnni samkvæmt frétt á ruv.is

Fréttastofa hefur í dag rætt við forsvarsmenn tveggja fyrirtækja í Belgíu og Bandaríkjunum,  en þau eru á meðal stærstu viðskiptavina Icelandic Seafood, sem selur þeim íslenskan fisk. Forsvarsmaður bandaríska fyrirtækisins Nova Seafood, jack Lombard, segir að hann hafi ekki mjög miklar áhyggjur af verkfalli sjómanna hér á landi, þó vissulega sé ástandið ekki gott.

Greiða hærra verð

Hann fái ennþá nóg af fiski til að sinna sínum viðskiptavinum, sem borga þó hærra verð nú en áður. Enn sem komið er hafi flestir viðskiptavinir verið tilbúnir til að greiða hærra verð, þó margir séu farnir að snúa sér að því að kaupa fisk frá Alaska, Noregi eða öðrum svæðum. Hann segist hafa trú á því að viðskiptavinir sínir muni ekki hætta að kaupa íslenskan fisk, og að þeir bíði eftir því að verðið komist aftur í eðlilegt horf.

Setur áætlanir í uppnámi

Kollegi hans í Belgíu hjá fyrirtækinu Levenstond, Axel Verberckmos, er mun svartsýnni. Hann hefur ekki trú á því að kaupendur íslensks fisks, til dæmis stórar verslunarkeðjur, muni kaupa fisk héðan aftur í bráð. Hinn almenni neytandi sé ekki mikið að velta því fyrir sér hvaðan fiskurinn kemur og því séu verslanirnar farnar að snúa sér annað og leiti þá helst til Noregs. Þegar markaður sem býður upp á ferskan fisk allt árið um kring sé allt í einu ekki lengur til staðar, fari það illa í verslanir sem geri áætlanir langt fram í tímann. Verkfallið muni því hafa slæm áhrif til lengri tíma, jafnvel þótt leyst yrði úr deilunni strax í dag.

Ekki búið að boða til næsta fundar

Samninganefnd Sjómannasambands Íslands sleit síðasta fundi í kjaradeilunni, á mánudaginn var. Ekki hefur verið ákveðið hvenær næsti fundur verður haldinn, en ríkissáttasemjari þarf þó að boða til nýs fundar á næstu tíu dögum, lögum samkvæmt.

 

Deila: