Veiðileyfum fækkaði í fyrra

Deila:

Almennum veiðileyfum fækkaði nokkuð á síðasta ári miðað við árið á undan.  Á það við leyfi til veiða bæði með aflamarki og krókaaflamarki. Heildarfjöldi leyfa er því nokkru minni nú en á fyrra ári. Almennu veiðileyfin voru samtals 1.262 en fiskveiðiárið 2014/2015 voru þau 1.320. Heildarfjöldi sérveiðileyfa dróst einnig saman  Grásleppuveiðileyfum fækkaði til dæmis verulega. Árið 2016 voru einungis gefin út 243 leyfi en þau voru 324 árið áður, samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Fiskistofu.

„Árið 2016 fjölgaði útgefnum leyfum til strandveiða eftir fækkun árin á undan og urðu þau álíka mörg og 2015. Á fiskveiðiárinu 2015/2016 fækkaði útgefnum makrílveiðileyfum enn frekar frá fyrra árinu og má rekja það að miklu leyti til sérreglna um makríl sem leyfði 100% millifærslu aflaheimilda, enga veiðiskyldu og nýrra reglna um tilfærslu veiðireynslu sem leitt hefur til samþjöppunar í greininni,“ segir í skýrslunni.

Nokkur aflamarksleyfi voru felld niður þar sem skip hafði ekki stundað veiðar undanfarandi 12 mánuði auk þess sem átta skip voru flutt úr aflamarkskerfinu yfir í krókaaflamarkskerfið og þrjú skip flutt frá krókaflamarkskerfinu.
Þá er nokkuð um að bátar sem eingöngu hafa haft leyfi til strandveiða hafi á árinu einnig fengið almennt leyfi til veiða í krókaaflamarki.

Í lögum um stjórn fiskveiða er kveðið á um að skip þurfi almennt veiðileyfi eigi því að vera heimilt að stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland. Almenn veiðileyfi eru tvenns konar, veiðileyfi með aflamarki og veiðileyfi með krókaaflamarki. Auk almennra veiðileyfa eru gefin út sérveiðileyfi á skip fyrir tilteknar veiðar sem óheimilt er að stunda nema með sérleyfi. Á þetta t.d. við um veiðar á deilistofnum, veiðar með dragnót og veiðar á grásleppu. Þá er í örfáum tilvikum veiðar háðar sérstöku leyfi Fiskistofu án þess að skilyrt sé að skip hafi almennt veiðileyfi. Þetta á t.d. við um frístundaveiðar, veiðar á tegundum sem einungis veiðast utan íslenskrar lögsögu og strandveiðar.

Deila: