Þetta er bara dásamlegt

Deila:

„Þetta er bara dásamlegt í einu orði sagt. Ég er að toga núna á móti í 25 metra vindi og verð bara varla var við hreyfingu. Það er engin leið að lýsa þeirri breytingu sem er að fara af gamla Klakki yfir á Drangey. Eins og svart og hvítt. Það eru búnir að vera margir brælutúrar síðustu vikurnar en maður kvíðir því ekkert að fara á sjó á þessu skipi þó eitthvað sé að veðri,“ sagði Snorri Snorrason, skipstjóri á ferskfisktogaranum Drangey SK 2 en togarinn var í sinni annarri veiðiferð í síðustu viku eftir að lokið var við að setja niður vinnslubúnað í skipið.

Snorri Snorrason.

Snorri Snorrason.

Útgerð skipsins, FISK Seafood á Sauðárkróki, tók á móti því í heimahöfn í ágúst síðastliðnum en það var smíðað í Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og er einn fjögurra samskonar ferskfisktogara á Norðurlandi sem komu til landsins í fyrra. Kaldbakur EA og Björgúlfur EA eru gerðir út af fullum krafti en eftir er að ljúka endanlegum vinnslulínum um borð. Sá fjórði, Björg EA, er við bryggju hjá Slippnum Akureyri og mun nú undir vorið hefja veiðar, fullbúin vinnslubúnaði.

Þorskurinn fullur af loðnu

Í Drangey SK er kælingar- og vinnslukerfi á milliþilfari frá Skaganum 3X, myndgreiningarbúnaður og mikil sjálfvirkni í vinnsluferlinu. Aflinn er fullkældur í ferlinu á vinnsluþilfari skipsins, fiskinum raðað þar í ker sem síðan fara með lyftum niður í lest. Þegar þangað er komið tekur lyftari við stæðunum, nokkurs konar hlaupaköttur sem einn maður stjórnar, og færir á sinn stað í lestinni. Og þar sem búið er að ná fullri kælingu aflans áður áður en í lest er komið þarf engan ís til að viðhalda kælingunni meðan á veiðiferð stendur. Um það sér kælibúnaður í lestinni. Snorri segir að líkt og við sé að búast þá taki fyrstu túrana að stilla kerfið og gera ýmsar minniháttar lagfæringar.

„Ég er með þrjá tæknimenn um borð í þessum túr og var með átta í fyrsta túrnum. Við vissum að það tæki einhverja túra að slípa þetta allt saman til og það er bara hluti af verkefninu. Þetta er allt eðlilegt og eins og við mátti búast,“ segir Snorri en þegar rætt var við hann var skipið á Rifsbanka, norður af Melrakkasléttu. Snorri segir fínt fiskirí og þorskurinn að elta loðnuna sem hann segir nóg af. „Þorskurinn er belgfullur af loðnu og ég er að sjá stóra flekki. Hér allt í kring eru norsk skip en þau hafa átt erfitt með að athafna sig vegna veðurs. Þetta er erfitt fyrir þá í svona veðurlagi. En það er mikið að sjá af loðnu – engin spurning.“
Ljósmyndir Jóhann Ólafur Halldórsson.

Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri, sem Athygli gefur út. Blaðið má lesa á eftirfarandi slóð: https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutv_1tbl_feb_2018?e=2305372/58404210

 

Deila: