Arðgreiðslur í sjávarútvegi lægri en meðaltalið

Deila:

Arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði á árunum 2010 til 2016 voru að jafnaði 21% hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi. Á sama tímabili voru arðgreiðslur hjá öðrum geirum atvinnulífsins að jafnaði 31%. Arðgreiðslur í sjávarútvegi eru því almennt minni en öðrum atvinnugreinum.

Frá þessu er sagt í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem sent var út í gær og segir þar ennfremur: Nú er sá árstími að fyrirtæki birta ársuppgjör og samhliða því er metið hvort tilefni sé til greiðslu arðs eða ekki. Almenna reglan er sú að fyrirtæki greiða einungis arð ef hagnaður er af rekstri og staða fyrirtækisins að öðru leyti góð. Þó er síður en svo öruggt að hluthafar fái arðgreiðslu þrátt fyrir hagnað og góða stöðu.

Það eru til dæmis mörg dæmi um að fyrirtæki í örum vexti, eins og tæknifyrirtæki, greiði ekki arð þrátt fyrir góða afkomu. Því er öfugt farið með stöndug fyrirtæki á stöðugum mörkuðum sem eiga litla möguleika á því að vaxa mikið; þau greiða frekar arð. Hluthafar í fyrirtækjum vænta ávöxtunar af fjármagni sínu rétt eins og þeir sem leggja pening inn á reikning í banka. Því fylgir meiri áhætta að fjárfesta í fyrirtæki, en leggja pening inn í banka og því vænta fjárfestar hærri ávöxtunar en af innstæðu í banka. Þrátt fyrir þetta er ekki óalgengt að menn hrökkvi við þegar heyrist af arðgreiðslum fyrirtækja, þá ekki síst arðgreiðslum sjávarútvegsfyrirtækja. Sjávarútvegsfyrirtæki eru nokkuð augljóslega í seinni hópnum sem nefndur er hér á undan, enda er fiskur takmörkuð auðlind og ekki mikið um vaxtarmöguleika. Þó er rétt að halda því til haga að sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að sjálfsögðu að fjárfesta í nýrri tækni; endurnýja skip sem stuðlar að aukinni framleiðni, verðmætasköpun og tryggir stöðu þeirra í alþjóðlegri samkeppni.

Því er forvitnilegt að gaumgæfa hvort arðgreiðslur í sjávarútvegi séu á einhvern hátt frábrugðnar því sem gengur og gerist í öðrum greinum hagkerfisins hér á landi. Kemur í ljós við þá skoðun, að þær eru talsvert lægri en almennt tíðkast! Þetta má lesa úr tölum Hagstofu Íslands sem birtar voru nú í morgun um rekstur og efnahag fyrirtækja. Þar kemur í ljós að arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði á árunum 2010 til 2016 voru að jafnaði 21% hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi. Á sama tímabili voru arðgreiðslur hjá öðrum geirum atvinnulífsins að jafnaði 31%. Upphrópanir um himinháar arðgreiðslur í sjávarútvegi eiga því vart við rök   að styðjast.”

Arðgreiðslur

 

Deila: