Dýrt að aflúsa laxinn

Deila:

Baráttan við laxalúsina kostaði norska laxeldið rúmlega 70 milljarða króna á síðasta ári. Þetta er niðurstaða rannsóknar Matvælastofnunar Noregs. Þessi upphæð er töluvert hærri en árið 2017. Samkvæmt rannsókninni er óbeinn kostnaður við aflúsunina einnig umtalsverður.

Lúsin er vandamál á öllum svæðum laxeldisins. Hægt er að bregðast við því með því að setja út stærri seiði, þannig að tíminn, sem þau eru í sjó verði styttri og þá er laxinn skemur í hættu vegna lúsarinnar. Þá hefur laxinum verið slátrað eftir styttri tíma í sjó, en þá fæst smærri fiskur, sem er á lægra verði en sá stærri.

Eins og er, er erfitt að reikna út bæði beinan og óbeinan kostnað, en fyrir liggur að upphæðin fer líklega ekki hækkandi. Notkun lyfja til að losna við lúsina hefur farið minnkandi, fyrst og frremst vegna þess að lúsin hefur öðlast meir þol gegn þeim.

Mesti kostnaðurinn er vegna lyfjanotkunar og fiskidauða og ekki  er þess að vænta að hægt sé að leysa vandamálið varanlega í nánustu framtíð. Stöðugt er verið að vinna að þróun nýrra lyfja og leiða til að aflúsa laxinn.  Einnig eru sérstakir fiskar notaðir í kvíarnar til að éta lúsina af laxinum, meðal annars hrognkelsi.

 

Deila: