Austurland skákar höfuðborgarsvæðinu

Deila:

Verðmæti landaðs afla í september var 10,9 milljarðar króna, sem var samdráttur um 2,2%. Samdrátturinn kemur mjög misjafnlega niður á landshlutum. Á Austurlandi jókst aflaverðmæti til dæmis um 11,4%, en féll um 27,6% á Suðurlandi. Fiskaflinn í sama mánuði varð 108.000 tonn, sem er 14% minna en í sama mánuði árið áður.

Aflaverðmætið lækkar því mun minna en aflamagnið og skýrist það af því að samdrátturinn er fyrst og fremst í ódýrari tegundum, það er uppsjárfiski.
Það ber til tíðinda að nú skákar Austurland höfuðborgarsvæðinu úr fyrsta sætinu. Verðmæti landaðs afla fyrir austan var 2,6 milljarðar króna, sem er eins og áður sagði vöxtur um 11,4%. Það er athyglisvert í ljósi þess að afli uppsjávartegunda dróst mikið saman, en Austfjarðahafnir taka öllu jöfnu á móti mestu af þeim tegundum.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur mikill hluti aflans undanfarin ár verið sjófrystur fiskur, en með fækkun frystitogara vex vægi ísfisks í verðmætinu. Verð á honum upp úr sjó er allt að helmingi lægra en á freðfiskinum. Aflaverðmæti í september í fyrra var 2,4 milljarðar, nánast það sama og í sama mánuði árið áður.

Næst á verðmætalistanum er Norðurland eystra með 1,6 milljarða sem er umtalsverður samdráttur, eða um 23,8%. Þar ræður væntanlega mestu minni landanir á botnfiski.

Langt á eftir þessum landshlutum kemur Suðurland með 696 milljónir, en þar er samdrátturinn 27,6%. Þá kemur Vesturland með 417 milljónir og samdrátt um 17,3%, síðan Vestfirðir með 415 milljónir og aukningu um 9,5%. Lestina rekur Norðurland vestra með 261 milljón og samdrátt um 16,9%.

Deila: