Mikil aflaverðmæti á höfuðborgarsvæðinu

Deila:

Höfuðborgarsvæðið ber höfuð og herðar yfir aðra landshluta þegar litið er á verðmæti landaðs afla á síðasta ári. Heildarverðmæti fiskaflans á síðasta ári var 10 milljarðar króna, sem er samdráttur upp á 17,3%. Aflaverðmæti á höfuðborgarsvæðinu var 27,7 milljarðar króna, sem er 15,1% samdráttur. Samdráttinn í heildina má að miklu leyti skýra með verkfalli sjómanna í upphafi árs, breyttri samsetningu heildarafla og lækkandi fiskverði almennt.

Það eru að segja má eingöngu Reykjavík og Hafnarfjörður þar sem landað er fiski á höfuðborgarsvæðinu. HB Grandi er þar langstærst en að auki er miklu af sjófrystum fiski landað í báðum höfnunum. Bolfiskur er uppistaðan í þessum löndunum og verðmæti hans mun meira en uppsjávarfisks. Þannig skýrir mikið magn og verðmeiri fiskur hið mikla aflaverðmæti í höfuðborginni.

Suðurnesin koma næst á eftir höfuðborgarsvæðinu með aflaverðmæti upp á 18,7 milljarða króna. Það er samdráttur um 16,3% en þar er botnfiskur uppistaða landaðs afla. Austurland kemur næst með 17,5 milljarða í aflaverðmæti. Samdrátturinn þar er einungis 5,9% sem skýrist af auknum löndunum á uppsjávarfiski.

Þá kemur Norðurland eystra með 13,8 milljarða króna og samdrátt upp á 19,7%. Þar er botnfiskur uppistaða aflans og verkfallið í fyrra hefur þar umtalsverð áhrif. Aflaverðmæti á Suðurlandi var 10,8 milljarðar króna og samdrátturinn 16,3%. Á Vesturlandi var aflaverðmætið 6 milljarðar króna og lækkaði um 11,5%. Verðmæti landaðs afla á Vestfjörðum var 5,7% miljarðar og dróst saman um 26% og á Norðurlandi vestra var verðmæti landaðs afla 5,3 milljarðar og samdrátturinn 40,3%.

Þar sem verðmæti landaðs afla er tiltölulega lítið eins og á þremur síðast töldu svæðunum geta landanir sem lenda sitthvoru megin áramóti skipt miklu máli.

Deila: