Kafari myndaði þétta loðnutorfu í Eyjafirði

Deila:

Kafarinn Erlendur Bogason náði einstökum myndum af loðnutorfu í Eyjafirði í byrjun apríl, skammt frá Hjalteyri. Hann var að tína skeljar á hafsbotni þegar loðnutorfa birtist skyndilega og fór að synda í kring um hann. Það vakti sérstaka athygli hans að loðnan var óhrygnd. Það þykir gefa sterkar vísbendingar um breytt hegðunarmynstur og að hún hrygni í auknum mæli við Norðurland.

Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2, þar sem rifjað var upp að árið 2020 hafi komið fram að fiskifræðingar teldu sig sjá vísbendingar um breytt atferli loðnunnar og aukna hrygningu fyrir norðan.

Í fréttinni lýsir Erlendur því að hann hafi nánast verið upp í fjöru þegar torfa birtist. Hún hafi synt alveg upp við yfiborðið. „Fljótlega tók Erlendur eftir því að þarna var einnig ljósari kvenloðna. Á kafla myndbandsins sést hún neðar og vinstra megin meðan hængarnir halda hópinn hægra megin en þekkt er að kynin séu aðskilin í torfu,“ segir í fréttinni.

Sjón er sögu ríkari.

Deila: