Norsk rannsókn staðfestir íslenskar niðurstöður um heilnæmi laxeldisafurða

Deila:

Ný norsk rannsókn bendir til að meira sé af mengandi eiturefnum í villtum laxi heldur en eldislaxi. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. „Niðurstöðurnar hafa komið mörgum á óvart í ljósi umræðunnar og fullyrðinga ýmissa um óhollustu fiskeldisafurða. Þessi rannsókn staðfestir margar aðrar rannsóknir sem sýna fram á hollustu laxfiska, svo sem vegna mikils innihalds af omega 3,“ segir á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva. Þar segir ennfremur:

Ólafur Sigurgeirsson lektor við Fiskeldis og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum hefur bent á að þessar rannsóknir staðfesti fyrri niðurstöður sem meðal annars voru gerðar hér á landi. Vísar hann meðal annars til rannsókna sem voru hluti af stóru vöktunarverkefni sem Evrópusambandið stóð fyrir og náði yfir landbúnaðar- og sjávarafurðir og dýrafóður í aðildarlöndum sambandsins ásamt Noregi og Íslandi árið 2004.

Þar var niðurstaðan á sömu lund. Minna af díoxínum, díoxínlíkum PCB efnum og bendi-PCB efnum fannst í eldislaxi og bleikju en villtri bleikju og laxi. Engu að síður var magn þessa efna í báðum tilvikum langt undir þeim viðmiðunarmörkum sem kveðið er á um. Eða eins og segir í greinargerð rannsóknarinnar:

„Miðað við íslensku aðskotaefnareglugerðina, sem er ein sú strangasta í heimi er varðar bendi-PCB-efni, er styrkur í þessum afurðum langt undir leyfilegum mörkum eða meira en tífalt lægri en þau kveða á um.“

Sjá fréttina á Stöð 2. : http://www.visir.is/g/2017170419230

Sjá niðurstöður íslenskrar rannsóknar: http://www.angling.is/files/Skra_0010620.pdf

 

 

 

Deila: