Leggja til 40% niðurskurð makrílkvótans

Deila:

Alþjóða hafrannsóknaráðið, ICES;  leggur til, í samræmi við nýtingarstefnu sem mun leiða til hámarks afraksturs til lengri tíma litið, að makríl afli ársins 2019 verði ekki meiri en 318 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 551 þúsund tonn og er því um að ræða rúmlega 40% samdrátt í tillögum ráðsins um afla næsta árs. Áætlað er að heildarafli ársins 2018 verði ríflega ein milljón tonn.

Gangi þessi ráðgjöf eftir verður makrílkvóti Íslands á næsta ári ríflega 50.000 tonnum minni en á þessu ári. Úthlutaður kvóti okkar er nú 132.098 tonn og leyfilegur afli með flutningi ónýttra heimilda frá síðasta ári 146.155 tonn. Aflinn nú er orðinn 126.746 tonn

Makrílafli íslenskra skipa árið 2017 var 167 366 tonn. Um 97% aflans veiddist í flotvörpu og 3% á handfæri. Um 63% aflans var veiddur innan íslenskrar lögsögu, 35% á alþjóðahafsvæðinu austur af landinu, rúmlega 1% í grænlenskri lögsögu og tæplega 1% í færeyskri lögsögu. Heildarafli allra þjóða úr stofninum var 1. 155. 944 tonn.

Þegar nánar er litið á gang mála í makrílveiðum almennt, kemur í ljós að aldrei síðustu 10 árin, hafa veiðiþjóðirnar farið að ráðleggingum ICES og ávalt veitt langt umfram ráðgjöfina. Á þessu tímabili nemur veiði umfram ráðleggingar í kringum tvær milljónir tonna. Skýringin á því er sú að strandveiðiþjóðirnar, sem réttinn til veiðanna eiga, hafa ekki getað komið sér saman um skiptingu heildarafla sín á milli. Ísland hefur í samningaviðræðum um skiptinguna verið sett út í kuldann af hinum þjóðum, sem ekki hafa vilja gefa eftir af hlutdeild sinni, þrátt fyrir þá staðreynd að makríllinn haldi sig í miklum mæli innan íslenskrar lögsögu í ætisgöngum yfir sumarið og aukna hlutdeild Íslands í veiðunum.

Makrílafli Íslendinga undanfarin ár hefur verið frá 149.282 tonnum árið 2012 upp í 172.960 tonn árið 2014.  Í fyrra var aflinn 167.366 tonn og í ár verður hann líklega undir 130.000 tonnum.

Makríll hefur gengið á Íslandsmið í fæðuleit yfir sumarmánuðina í ríflega áratug. Niðurstöður árlegs makrílleiðangurs í NA-Atlantshafi sumarið 2018 benda til að minna magn af makríl hafið verið innan íslenskrar lögsögu en síðustu sex sumur. Ástæður minni makrílgengdar eru óþekktar.

Þrjár ástæður eru fyrir lækkun á ráðlögðum afla fyrir árið 2019 samanborið við síðustu ráðgjöf. Í fyrsta lagi, hrygningarstofninn er núna metinn vera minni en í stofnmati síðasta árs. Í öðru lagi, hrygningarstofninn hefur farið minnkandi undanfarin ár, veiðiálag hefur verið hátt og nýliðun undir meðallagi síðustu ár sem veldur því að spáð er enn frekari minnkun hrygningarstofns á næstu árum. Í þriðja lagi mun stærð hrygningarstofns fara undir aðgerðamörk árið 2019 og í samræmi við nýtingarstefnu er þá dregið úr veiðiálagi.

Ekki hefur verið samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr makrílstofninum um skiptingu aflans, með þeim afleiðingum að veiði hefur verið umfram ráðgjöf ICES. Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér og frekari upplýsingar í tækniskýrslu sérfræðinganefndar ICES.

 

Deila: